[sam_zone id=1]

Stjarnan með þrjú stig á Húsavík

Völsungur og Stjarnan mættust í kvöld á Húsavík í Mizunodeild kvenna. Stjarnan sigraði leikinn 3-1 (17-25, 21-25, 25-18, 24-26) eftir mikla baráttu hjá báðum liðum. Leikurinn var langur og spennandi og var mikil stemning í stúkunni og margir áhorfendur.

Fyrsta hrina byrjaði frekar jafnt og var allt jafnt í stöðunni 9-9. Stjarnan fór síðan hægt og rólega að búa til forskot sem þær náðu að halda út alla hrinuna. Völsungur tók leikhlé í stöðunni 10-14 en það dugði ekki til og jók Stjarnan á forskotið. Stjarnan kláraði fyrstu hrinuna nokkuð örugglega 17-25. Erla Rán Eiríksdóttir spilaði stórt hlutverk í fyrstu hrinu en hún skoraði átta stig og blokkaði meðal annars fyrsta og síðasta boltann í hrinunni.

Önnur hrina var jöfn og spennandi allan tíman og liðin skiptust á því að hafa  yfirhöndina í hrinunni. Jafnt var í stöðunni 20-20 en þá fór sókn Stjörnunnar í gang og skoruðu þær þrjú stig í röð úr sókn. Völsungur tók leikhlé í stöðunni 20-23 en það dugði ekki til að stoppa Stjörnuna sem kláruðu hrinuna 21-25.

Þriðja hrina var æsispennandi og var jafnt í stöðunni 17-17. Þá kom frábær kafli hjá liði Völsungs og skoruðu þær átta stig á meðan Stjarnan skoraði aðeins eitt. Staðan var því orðin 24-18 fyrir Völsung. Arna Védís átti síðan frábæra sókn í lok hrinunnar og tryggði Völsung sigur 25-18. Allt annað var að sjá til liðs Völsungs í þessari hrinu og sýndu þær að þær ætluðu ekki að gefa neitt eftir.

Fjórða hrina var jöfn og spennandi allan tíman. Liðin skiptust á að vera yfir og var það Völsungur sem var yfir í stöðunni 24-23. Stjarnan tók þá leikhlé sem virtist hafa mjög jákvæð áhrif á Stjörnustúlkur þar sem þær skoruðu þrjú stig í röð. Stjarnan tryggði sér þar með sigur í hrinunni 24-26 og sigur í leiknum 1-3.

Erla Rán Eiríksdóttir

Stigahæst í leiknum í kvöld var Erla Rán Eiríksdóttir með 23 stig, þar af 14 stig úr sókn, fimm hávarnir og fjögur stig beint úr uppgjöf. Stigahæst í liði Völsungs var Sladjana Smiljanic með 18 stig, þar af 15 úr sókn, tvo ása og eina hávörn.

Liðin mætast aftur á morgun kl 12:00. Formið mun spila stórt hlutverk í leiknum á morgun þar sem leikur kvöldsins var um tveir tímar á lengd. Einnig spiluðu bæði liðin á sömu leikmönnum allan tímann, nema Völsungur skipti einu sinni um frelsingja.