[sam_zone id=1]

Toppslagur í Mizunodeildinni um helgina

Það verður sannkallaður toppslagur um helgina þegar Þróttur Nes fær Aftureldingu í heimsókn í Mizunodeild kvenna. Þróttur Nes situr á toppi deildarinnar með 38 stig eftir 14 leiki á meðan Afturelding situr í öðru sæti deildarinnar með 36 stig eftir jafn marga leiki. Þessi tvö lið hafa stungið hin liðin í deildinni af en Stjarnan situr í þriðja sæti deildarinnar með aðeins 20 stig eftir 11 leiki.

Leikurinn fer fram í Íþróttahúsinu í Neskaupstað á laugardaginn kl 13:00. Búast má við hörkuspennandi leik og fullu íþróttahúsi af áhorfendum þegar Atli Freyr Björnsson og Sigurfinnur Líndal Stefánsson flauta leikinn af stað. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á YouTube rás Þróttar Nes.

Hér fyrir neðan er smá samantekt um atkvæðamestu leikmenn í báðum liðum.

Þróttur Nes

Paula Del Olmo Gomez (#5) er stigahæsti leikmaðurinn í liði Þróttar Nes með 177 stig skoruð á tímabilinu. Paula er einnig sigahæsti leikmaðurinn í Mizunodeildinni miðað við hrinufjölda en hún skorar að meðaltali 4.12 stig í hrinu. Hún er með næst bestu sóknarnýtinguna í deildinni eða 75% en eini leikmaðurinn með hærra en það er Sofie Sjöberg sem spilaði með Stjörnunni á fyrri hluta tímabils en leikur nú með Örebro Volley í Svíþjóð. Samkvæmt tölfræðinni er Paula næst besti kantsmassarinn í deildinni, á eftir Sladjönu Smiljanic úr Völsung.

Ana Maria Vidal Bouza (#13) er annar besti uppspilarinn í deildinni samkvæmt tölfræðinni. Ana Maria er einnig besti leikmaðurinn í hávörn í liði Þróttar Nes, en hún hefur skorað 27 stig úr hávörn og skorar að meðaltali 0.6 stig í hverri hrinu úr hávörn. Ana Maria situr í þriða sæti í deildinni yfir besta blokkarann og yfir besta uppgjafarann. Ana Maria hefur skorað 31 ás á tímabilinu fyrir Þrótt Nes.

Særún Birta Eiríksdóttir (#9) er þriðja besta miðjan í Mizunodeildinni samkvæmt tölfræðinni. Særún Birta skorar að meðaltali eitt stig úr sókn, 0.4 stig úr hávörn og 0.54 stig úr uppgjöf í hverri hrinu fyrir Þrótt Nes.

Afturelding

Haley Rena Hampton (#13) er atkvæðamesti leikmaður Aftureldingar í sókn. Haley er stigahæsti leikmaðurinn í deildinni með 208 stig skoruð. Hún  er einnig í öðru sæti yfir flest stig  skoruð miðað við hrinufjölda en hún skorar að meðaltali 4.08 stig í hrinu fyrir Aftureldingu. Haley er samkvæmd tölfræðinni besti díóspilarinn í Mizunodeildinni.

Fjóla Rut Svavarsdóttir (#8) er besta miðjan í Mizunodeildinni samkvæmt tölfræðinni. Fjóla er með flest hávarnarstig í deildinni með 37 hávarnir en hún er með næst flestar hávarnir miðað við hrinufjölda eða 0.82 stig í hrinu. Fjóla er einnig öflug í sókninni fyrir Aftureldingu en hún skorar að meðaltali 1.5 stig úr sókn í hrinu og er með 67% sóknarnýtingu.

Mikayla Marie Derochie (#10) er fimmti besti uppspilarinn í Mizunodeildinni samkvæmt tölfræðinni. Hún hefur skorað flest stig úr uppgjöf í deildinni eða 47 ása. Hún er einnig stigahæst í uppgjöf miðað við hrinufjölda og skorar hún að meðaltali 0.92 stig úr uppgjöf í hverri hrinu.

Mizunodeildin um helgina

Um helgina fara einnig fram fjórir aðrir leikir í Mizunodeild kvenna. Völsungur og Stjarnan mætast tvisvar sinnum á Húsavík og HK fær Þrótt Reykjavík og KA í heimsókn.