[sam_zone id=1]

VBC Galina sigraði ZESAR

Thelma Dögg Grétarsdóttir og liðsfélagar hennar í VBC Galina áttu fínan leik gegn VFM ZESAR í gær og tryggðu sér mikilvægan 3-0 sigur.

 

Galina hefur átt í vandræðum með að klára leiki á tímabilinu en eru þó alls ekki á slæmum stað í deildinni. Liðið er í 8. sæti deildarinnar með 21 stig þegar 8 umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Þar rétt fyrir ofan eru lið Edelline Köniz með 22 stig og Volley Lugano með 25 stig. Lokaspretturinn verður því æsispennandi og mikið gæti breyst á síðustu metrunum.

Leikurinn í gær var hörkuspennandi en Galina var í áttunda sæti og ZESAR í því níunda. Fyrstu tvær hrinurnar voru nokkuð jafnar en þó hafði Galina yfirhöndina. Þeim lauk báðum með 25-21 sigri Galina og þær komnar í frábæra stöðu í leiknum. Þriðja hrinan reyndist þó erfiðari og gaf lið ZESAR allt í hrinuna. Það dugði þó ekki til og Galina hrósaði 3-0 sigri í leiknum eftir að sigra hrinuna 26-24. Thelma skoraði 10 stig fyrir Galina og er þar með í 4. sæti yfir stigahæstur leikmenn deildarinnar með 322 stig samtals. Hún var ánægð með sigurinn og hafði þetta að segja um leikinn sjálfan :

“Við byrjuðum leikinn ekki nógu vel. Klaufaleg mistök áttu sér stað og fljótlega voru þær komnar með gott forskot á okkur. Við komum þó sterkar til baka í miðri hrinu, með meiri vilja en þær að klára hrinuna og fór hún 25-21 okkur í vil. Hrina tvö byrjaði mun betur en samt sem áður gerðum við mistök í miðri hrinu. Sterkar uppgjafir gerðu okkur kleift að halda forskotinu út hrinuna og fór hún sem áður 25-21. Í hrinu þrjú gáfum við eftir, þær nýttu sér það og gerðu okkur erfitt fyrir í móttöku sem varð til þess að sóknin varð ekki nógu sterk. Eftir jafnan leik og mikinn varnarleik var staðan orðin 22-24 VFM í vil en settum við þá í lás, gerðum tvo ása og jöfnuðum 24-24. Móttöku vandræði og sóknarmistök andstæðings réðu úrslitum og fór hrinan 26-24 okkur í vil og þar með leikurinn 3-0.”

Þetta var einungis í annað skipti á tímabilinu sem Galina vinnur 3-0 og því kærkominn sigur, þá sérstaklega fyrir sjálfstraustið. Næstu leikir skera úr um stöðu liða fyrir úrslitakeppnina og sem stendur myndi Galina mæta toppliði deildarinnar í fyrstu umferð, sem gæti reynst mjög erfitt. Næsti leikur Galina er gegn toppliði Volero Zurich næsta laugardag og verður spennandi að sjá hvort Galina nái að stríða þessu geysisterka liði.