[sam_zone id=1]

Kaflaskiptur leikur á Álftanesi

Stjarnan og HK mættust í Mizunodeild kvenna í kvöld en leikið var í íþróttahúsinu á Álftanesi.

HK byrjaði leikinn töluvert betur og komust fljótt í stöðuna 6-0 með öflugum uppgjöfum frá Matthildi Einarsdóttir sem setti góða pressu á Stjörnuna. HK hafði töluverða yfirburði í fyrstu hrinu en Stjarnan náði ekki að vinna niður forskotið og fór svo að HK fór með öruggan sigur 25-16.

Stjarnan kom til baka í annari hrinu eftir að HK hafði verið með yfirhöndina lengst af. HK leiddi lungað af hrinunni en Stjarnan náði hinsvegar að jafna og úr varð hörkuhrina. Stjarnan stal svo sigri í hrinunni 25-23.

Aftur voru HK með mikla yfirburði í þriðju hrinu en HK komst í 5-0 og enn og aftur var það Matthildur Einarsdóttir sem var í uppgjöf en hún skoraði m.a. þrjá ása í röð. HK lét forskotið aldrei af hendi en þrátt fyrir góða rispu frá Stjörnunni undir lokinn þá hafði HK betur 25-14.

Stjarnan var svo sterkari aðilinn í byrjun fjórðu hrinu en HK náði að jafna leikinn í stöðunni 8-8. Aftur gaf Stjarnan í og náði góðu forskoti. Stjarnan jók forskotið hægt og rólega en gaf svo aðeins undir í lokinn. HK skoraði þá 3 stig í röð úr uppgjöf og náði að jafna leikinn 23-23. Stjarnan skelti þá í lás og tók næstu tvö stig og sigraði hrinuna 25-23.

Enn hélt leikurinn áfram að vera kaflaskiptur en HK hafði töluverða yfirburði í oddahrinunni. Eftir jafna byrjun þá náði HK tökum á hrinunni og var Stjarnan enn og aftur að lenda í vandræðum með uppgjafir HK liðsins. HK sigraði oddahrinuna 15-8 og leikinn því 3-2.

Stigahæst í leiknum var Hjördís Eiríksdóttir leikmaður HK með 20 stig. Stigahæst í liði Stjörnunnar var Erla Rán Eiríksdóttir með 14 stig.

Eftir leikinn er HK enn í 4.sæti en komnar með 15 stig eftir 13 leiki. Stjarnan situr svo enn í 3.sæti og fara upp í 20 stig eftir aðeins 11 leiki en Stjarnan hefur leikið fæsta leiki af liðunum 7 í Mizunodeild kvenna.