[sam_zone id=1]

Baráttuleikur í Mosfellsbæ í kvöld

Afturelding sigraði Þrótt Reykjavík 3-0 (26-24, 25-17, 25-22) í kvöld. Þrátt fyrir 3-0 niðurstöðu þá var leikurinn nokkuð jafn og spennandi og sýndu bæði lið góð tilþrif.

Afturelding byrjaði leikinn af miklum krafti og komst strax í stöðuna 8-1. Þróttarar sýndu þá allt annan leik og jöfnuðu leikinn í stöðunni 10-10 og svo aftur í stöðunni 21-21. Þrótt vantaði aðeins eitt stig til þess að klára fyrstu hrinuna í stöðunni 23-24, en þá gerði Tinna Sif mistök í uppgjöf. Afturelding refsaði svo fyrir þessi mistök en Mikayla Marie Derochie gerði stig beint úr uppgjöf og Haley Rena Hampton kláraði svo hrinuna 26-24 með sóknarstigi.

Önnur hrina fór mun jafnar á stað en sú fyrsta. Jafnt var á liðunum í stöðunni 15-15 en eftir það tók Afturelding fram úr Þrótti. Fjóla Rut átti stórleik í þessari hrinu og átti meðal annars þrjú hávarnarstig með mjög stuttu millibili. Fjóla kláraði einnig hrinuna með ás úr uppgjöf í og tryggði Aftureldingu sigur 25-17.

Í þriðju hrinu byrjaði Þróttur betur. Þær komust í 1-5 forskot og voru einnig með 5-9 forskot. Afturelding saxaði hægt og bítandi á forskotið og náðu þær að jafna leikinn í stöðunni 12-12. Aftur var jafnt í stöðunni 16-16 en eftir það átti Afturelding stórgóðan kafla þar sem þær fengu fimm stig í röð og komust í 21-16. Þetta bil á milli liðanna reyndist of mikið fyrir Þrótt itl að brúa og kláraði Afturelding þriðju hrinuna 25-22 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæst í leiknum var Haley Rena Hampton, úr Aftureldingu, með 18 stig. Haley skoraði 17 stig úr sókn og eitt stig úr uppgjöf. Eldey Hrafnsdóttir var stigahæst í liði Þróttar með 14 stig. Eldey skoraði 11 stig úr sókn, tvö stig úr hávörn, og eitt stig úr uppgjöf.