[sam_zone id=1]

Örebro með sigur í stórleik helgarinnar í Svíþjóð

Örebro tók um helgina á móti liði Hylte/Halmstad í sænsku úrvalsdeildinni í blaki. Um sannkallaðan stórleik var að ræða því að Örebro var í þriðja sætinu fyrir leikinn á meðan Hylte/Halmstad voru í efsta sæti deildarinnar.
Leikurinn stóð svo sannarlega undir væntingum og meira en það en leikurinn endaði í fimm hrinum og réðust úrslit ekki fyrr en eftir tveggja og hálfs tíma leik.

Það voru Örebro sem byrjuðu betur og náðu þær fljótt nokkura stiga forystu í fyrstu hrinunni. Liðin skiptust síðan á að skora stig og komst Hylte/Halmstad nokkrum sinnum nálægt Örebro en þær gáfu alltaf í aftur þegar gestirnir nálguðust. Örebro vann fyrstu hrinunna 25-20.
Önnur hrinan var hnífjöfn en það munaði aldrei meira en tveimur stigum á liðunum í gegnum alla hrinuna. Liðin skiptust á að hafa forystuna og var greinilegt að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt í þessum leik.
Örebro voru þó sterkari á lokasprettinum og skoruðu síðustu stig hrinunnar og unnu hana þar með 26-24.

Eftir þessar fyrstu tvær hrinur snérist leikurinn alveg við. Það var alveg ljóst að meistararnir í Hylte/Halmstad ætluðu ekki að fara tómhentar heim. Þær tóku sig til og settu meiri pressu á liðsmenn Örebro. Örebro voru þó aldrei langt undan og var spennan gífurleg í leiknum. Hylte/Halmstad unnu þó næstu tvær hrinur 20-25 og 24-26 og tryggðu sér þar með oddahrinu.

Oddahrinan var síðan æsispennandi, Hylte/Halmstad byrjuðu hana þó betur og voru yfir framan af. Liðin skiptu um vallarhelming í stöðunni 6-8 fyrir gestina. Það stefndi síðan allt í að Hylte/Halmstad myndi fullkomna endurkomu sína í leiknum. Þær voru komnar 11-14 yfir og vantaði aðeins eitt stig til að vinna leikinn. Þó setti Örebro þó allt í lás og jafnaði leikinn í 14-14.
Örebro náði síðan yfirhöndinni og fékk fyrst tækifæri á sigri í stöðunni 17-16. Gestirnir voru þó ekki alveg búnir að gefast upp, en Örebro náðu þó að skora tvö síðustu stigin og unnu hrinuna 19-17 og þar með leikinn 3-2.

Eftir leikinn er spennan á toppnum gríðarleg. Engelholm eru núna komnar í efsta sætið með 53 stig, stigi meira en Hylte/Halmstad sem datt niður í annað sætið en eiga þó leik til góða. Örebro eru síðan sem fyrr í þriðja sætinu með 50 stig.

Jóna Guðlaug lék allan leikinn í liði Örebro og var hún frábær í leiknum. Hún skoraði 33 stig og var meðal annars með 6 ása og 45% sóknarnýtingu. Hún var að lokum valinn maður leiksins og var vel að því kominn.

Nánari tölfræði má sjá hér.