[sam_zone id=1]

VBC Galina úr leik í CEV Challenge Cup

Thelma Dögg Grétarsdóttir og liðsfélagar hennar í VBC Galina léku í gær seinni leik sinn gegn Óbuda Budapest í CEV Challenge Cup. Budapest sigraði fyrri leikinn 3-1.

 

Galina þurfti að sigra leikinn 3-0 eða 3-1 til að knýja fram gullhrinu og byrjaði leikurinn vel fyrir þær. Þær náðu forystu um miðja fyrstu hrinuna og áttu svo góðan lokakafla sem skilaði 20-25 sigri í hrinunni. Önnur hrinan var jöfn en heimakonur í Óbuda höfðu þó yfirhöndina. Galina náði ekki að saxa nógu mikið á þær og lauk hrinunni 25-19, Óbuda í vil. Þar með voru Thelma og liðsfélagar í Galina komnar með bakið upp við vegg og þurftu að sigra næstu tvær hrinur til að eiga möguleika á gullhrinunni.

Þriðja hrina gekk illa og var heimaliðið komið 16-9 yfir um miðja hrinuna. Þrátt fyrir smá áhlaup náðu Galina ekki að halda í við Óbuda og þær sigruðu hrinuna 25-18 og tryggðu sig þar með áfram í keppninni. Thelma Dögg hefur verið að glíma við meiðsli á öxl og fékk því hvíld í síðustu tveimur hrinunum, enda þátttöku liðsins að ljúka í keppninni. Galina voru þó ekki á þeim nótum að gefast upp og unnu fjórðu hrinuna örugglega, 18-25 og tryggðu sér oddahrinu í leiknum. Oddahrinan var jöfn og spennandi en að lokum sigraði Óbuda 15-12 og leikinn þar með 3-2. Uppgjafir reyndust Galina erfiðar í leiknum, en þeir gerðu 24 mistök í uppgjöfum, af þeim 100 uppgjöfum sem þær tóku í leiknum.

Í liði Galina var Nuria Lopes da Silva stigahæst með 20 stig en Thelma Dögg skoraði 19 stig. Í liði Óbuda var Verica Simic atkvæðamest, en hún skoraði 20 stig. Galina á heimaleik gegn VC Kanti á morgun, laugardag, og þurfa þær nauðsynlega á sigri að halda til að halda sig frá botnsvæðinu. VC Kanti eru þó í 4. sæti deildarinnar og verður leikurinn því erfiður fyrir Galina sem eru í 9. sætinu.