[sam_zone id=1]

3-0 tap gegn Svíþjóð í undankeppni EM

U19 ára lið kvenna lauk rétt í þessu leik gegn Svíþjóð í undankeppni EM en leikið er í Úkraínu.

Byrjunarlið Íslands var eftirfarandi: Birta Þrastardóttir, Heiða Elísabet Gunnarsdóttir, Eldey Hrafnsdóttir, Hrafnhildur Njálsdóttir, Anna Karen Marinósdóttir, Matthildur Einardóttir og Valdís Þorvarðardóttir.

Stelpurnar byrjuðu leikinn í dag vel og komu sér fljótlega í 3-0 með Heiðu Elísabet í uppgjöf. Eftir að Svíþjóð hafði náð að jafna leikinn þá tók við hörku spennandi kafli þar sem liðin skiptust á stigum en góður varnarleikur Íslands varð til þess að liðið fór með yfirhöndina inní fyrsta tæknihlé leiksins 8-7. Illa gekk hinsvegar hjá liðinu eftir tæknihléð og fór Svíþjóð hægt og rólega að ná tökum á leiknum. Stelpunum gekk illa að komast framhjá þéttri hávörn Svíþjóðar og gekk illa að finna lausnir. Ísland tapaði fyrstu hrinu 25-18.

Eftir að hafa byrjað aðra hrinu vel þá fór fljótlega að síga á leik stelpnanna. Svíþjóð gekk á lagið og með öflugum uppgjöfum þá lentu stelpurnar í vandræðum. Illa gekk að ná upp góðum sóknarleik og var Svíþjóð yfir 16-8 í seinna tæknihlé. Svíþjóð sleppti aldrei taki á hrinunni og fóru með yfirburðar sigur 25-10 en lítið gekk upp hjá stelpunum. Emil Gunnarsson þjálfari Íslands leyfði sér að nota flesta sína varamenn í hrinunni.

Eftir jafna byrjun í þriðju hrinu þá leiddi Svíþjóð í fyrra tæknihlé 8-5. Líkt og í hrinunum á undan þá gekk stelpunum illa að halda stöðuleika og fóru mistökin fljótt að telja. Svíþjóð var yfir 16-8 í seinna tæknihlé.  Ísland gerði breytingar á liðinu og nýttu þær sem komu inn tækifærið og náðu stelpurnar að minnka muninn niður í 18-17. Þá hrökk Svíþjóð í gang og tók Ísland leikhlé í stöðunni 21-17 fyrir Svíþjóð. Svíþjóð gekk á lagið og endaði hrinan með sigri Svíþjóðar 25-18 og unnu þær leikinn því 3-0.

3-0 tap því staðreynd en stelpurnar sýndu góða takta og mikla baráttu. Líkt og í gær þá vantaði herslumuninn til að ná hrinu.

Stigahæst í liði Íslands var Matthildur Einarsdóttir með 8 stig.

Ísland mætir svo heimastúlkum í Úkraínu í lokaleik liðsins á morgun en sá leikur er kl 14:00 á íslenskum tíma.