[sam_zone id=1]

U19 ára lið kvenna hársbreidd frá fyrstu sigurhrinu Íslands í Evrópukeppni

U19 ára landslið kvenna hóf í dag þáttöku í undankeppni EM með leik gegn Kýpur en riðill Íslands fer fram í Úkraínu.

Stelpurnar byrjuðu leikinn af krafti og náðu í fyrstu tvö stig leiksins, Kýpur voru hinsvegar ekki lengi að jafna og eftir það skiptust liðin á stigum. Ísland nær svo góðum kafla eftir að hafa verið 8-10 undir en þá fer Birta Þrastardóttir í uppgjöf og setur góða pressu og fyrir vikið nær Ísland 4 stigum í röð og kemst í 12-10. Kýpur stelpur koma sér hinsvegar aftur í forustu með góðum 4 stiga kafla.

Í stöðunni 13-15 tekur Emil Gunnarsson þjálfari Íslands leikhlé og fá stelpurnar svo stig strax í kjölfarið. Stelpurnar ná hægt og rólega yfirhöndinni en eru þó í smá vandræðum með sterkt miðjuspil Kýpur stelpna. Undir lok hrinu kom slæmur kafli hjá stelpunum og misstu þær tökin á hrinunni, Kýpur gengu á lagið og fóru með sigur 25-21 í hörkuspennandi hrinu.

Stelpurnar voru hinsvegar allveg týndar í byrjun annarar hrinu og voru aðeins komnar með 1 stig gegn 8 stigum Kýpur í fyrsta tæknihlé. Erfiðar uppgjafir frá Leonidou leikmanni Kýpur gerðu stelpunum erfitt fyrir. Stelpurnar náðu ekki upp næginlega sterkum sóknarleik og tók Emil Gunnarsson þjálfari Íslands leikhlé í stöðunni 11-4 fyrir Kýpur. Stelpurnar náðu sér ekki á strik í hrinunni sem lauk með sigri Kýpur 25-10.

Það var hinsvegar allt annað að sjá stelpurnar í byrjun þriðju hrinu en með sterkum uppgjöfum frá Önnu Karen þá komst Ísland í 5-0. Áfram hélt Ísland að pressa uppgjafirnar og náðu Kýpur stelpur ekki að byggja upp næginlega sterkar sóknir. Fyrir vikið gekk sóknarleikur Íslands betur upp og var staðan 8-1 fyrir Ísland í fyrra tæknihlé. Stelpurnar gáfu aðeins eftir undir miðja hrinu og tók Ísland leikhlé í stöðunni 12-8. Slæmur kafli hjá stelpunum varð til þess að Kýpur fór með yfirhöndina í seinna tæknihléð 16-13 og þrátt fyrir góða baráttu í lokin þá fór Kýpur með sigur í hrinunni 25-21.

Stelpurnar voru hársbreidd frá fyrstu sigurhrinu Íslands í Evrópukeppni og geta þær tekið margt jákvætt frá leiknum. Þó leikurinn hafi verið nokkuð kaflaskiptur þá sýndu þær góða baráttu og veittu sterku liði Kýpurs góða mótsspyrnu. Með aðeins meiri stöðuleika þá hefði liðið hægleg getað náð sigri í fyrstu og þriðju hrinu en liðið lék á köflum frábærlega.

Emil Gunnarsson þjálfari Íslands var ánægður með viðhorf leikmanna til leiksins „Það var margt mjög gott í leiknum, góðar sóknir og langar skorpur. Einnig var ég mjög ánægður með viðhorf leikmanna til leiksins og baráttuna. Mér fannst vanta uppá smáatriðin svona í lok leiks, þau voru munurinn. En yfir allt mjög flottur leikur.“

Stigahæst í íslenska liðinu var Heiða Elísabet Gunnarsdóttir með 10 stig.

Stelpurnar mæta svo Svíþjóð á morgun kl 17:00 á íslenskum tíma.