[sam_zone id=1]

Thelma og Elísabet á fullu um helgina

Thelma Dögg Grétarsdóttir og Elísabet Einarsdóttir léku báðar með sínum liðum í svissnesku úrvalsdeildinni um helgina.

 

Thelma Dögg og félagar hennar í VBC Galina mættu sterku liði TS Dudingen sem var í þriðja sæti deildarinnar fyrir leikinn. Við heyrðum í Thelmu eftir leikinn og hún hafði þetta að segja um hann:

“Allar hrinurnar voru svipaðar, við héldum í við þær allan tímann en vorum þó alltaf aðeins á eftir. Við vissum fyrir leikinn hann yrði strembinn þar sem þær sitja í 3. sæti og við í því níunda. Þær héldu sama leveli allan leikinn á meðan við vorum með góðar uppgjafir, góðar hávarnir og góða sókn en allt á mismunandi tímum og náðum aldrei að halda okkar striki og gerði það gæfu muninn. Þær spila mjög hratt og þá sérstaklega miðjurnar sem gerir það mjög erfitt fyrir okkar miðjur að komast á réttan stað á réttum tíma. Einnig áttum við í erfiðleikum með mótttöku í dag en þær pressuðu vel á okkur sem gerði sóknarmöguleikana okkar takmarkaða.”

Thelma stóð sig vel og var valin maður leiksins, en leikurinn tapaðist 3-0 (21-25, 20-25, 20-25). Eins og sést á tölunum var lið Galina aldrei langt frá í neinni af hrinunum og stóðu þær sig vel þrátt fyrir tap. Á fimmtudag á Galina útileik gegn Óbuda Budapest í CEV Challenge Cup en þær töpuðu fyrri leiknum 3-1 og þurfa því sigur til að halda lífi sínu í keppninni. Næsti deildarleikur verður svo gegn VC Kanti þann 13. janúar.

Elísabet Einarsdóttir og liðsfélagar hennar í Lugano náðu í sigur gegn liði Zesar, en þær unnu 3-0 (25-19, 25-19, 25-20). Elísasbet hefur fengið fá tækifæri eftir að hún jafnaði sig af meiðslum en hún kom inn um miðja þriðju hrinuna í leik gærdagsins og skoraði úrslitastigið og tryggði þar með sigur Lugano. Næsti leikur þeirra verður þann 21. janúar þegar VBC Galina kemur í heimsókn í þessum íslendingaslag.

Bæði lið eru enn inni í svissnesku bikarkeppninni og verður næsta umferð í bikarnum spiluð í dag, 7. janúar. Lugano leikur gegn VB Therwil á útivelli en Galina fær Cheseaux í heimsókn. Lugano leikur klukkan 16 á staðartíma en Galina klukkan 17.