[sam_zone id=1]

Afturelding sigraði Þrótt Nes í seinni leik liðanna

Afturelding og Þróttur Nes mættust öðru sinni í Mizunodeild karla í dag. Þróttur sigraði 3-0 í fyrri leik liðanna í gær.

 

Þróttur Nes byrjaði leikinn af krafti og komst fljótt í 1-5. Þrátt fyrir mikið af mistökum hélt Afturelding þó í við þá og komust 13-12 yfir gott áhlaup. Hnífjafnt var allt fram eftir hrinunni en í lokin sigu Afturelding fram úr og tryggðu sér 25-22 sigur. Leikurinn hélt áfram að vera jafn í annarri hrinunni og var jafnt um miðja hrinu, 15-15. Miguel Mateo fór hamförum í liði Þróttar og um miðja hrinu hafði hann þegar skorað 8 stig eða helming stiga liðs síns. Afturelding hafði þó yfirburði í lok hrinunnar og sigraði hana 25-18.

Strax í byrjun þriðju hrinu lentu Borja Gonzalez og Atli Fannar, leikmenn Þróttar, illa saman og þurfti Borja að yfirgefa völlinn. Borja er aðaluppspilari liðsins og kom hinn ungi Börkur Marinósson inn í hans stað. Þetta reyndust of miklar breytingar fyrir Þrótt og þrátt fyrir góða baráttu sigraði Afturelding hrinuna mjög örugglega, 25-18.

Stigahæstur í liði Þróttar var Miguel Mateo með 24 stig en Radoslaw Rybak skoraði 15 stig fyrir Aftureldingu. Eftir leikinn er lið Aftureldingar í fimmta sætinu með 6 stig eftir 10 leiki en Þróttarar eru í fjórða sætinu með 8 stig eftir 8 leiki. Afturelding spilar næst gegn HK á heimavelli, þann 16. janúar. Þróttur Nes á hins vegar útileik gegn KA þann 10. janúar, næsta miðvikudag.