[sam_zone id=1]

Þróttur Nes sigraði Aftureldingu eftir oddahrinu

Toppslagur Aftureldingar og Þróttar frá Neskaupstað fór fram í Mizunodeild kvenna í dag. Leikurinn fór fram í Varmá.

 

Lið Þróttar var fyrir leikinn á toppi deildarinnar en þær sigruðu HK í gærkvöldi, 3-1. Afturelding var þó skammt á eftir þeim og með sigri gátu þær minnkað forskot Þróttar í 1 stig, auk þess að hafa spilað einum leik minna en Þróttur. Gestirnir byrjuðu leikinn betur í dag og náðu strax góðu forskoti. Afturelding tók sig á seint á hrinunni og staðan var orðin jöfn í 19-19. Liðin skiptust á stigum en að lokum sigraði Afturelding 26-24.

Afturelding náði snemma forskoti í annarri hrinu en Þróttarar misstu þær þó ekki langt frá sér. Hávörn Aftureldingar gerði Þrótturum erfitt fyrir og þær áttu einnig erfitt með að stöðva Haley Hampton. Lið Aftureldingar átti svo góðan kafla um miðja hrinu og tók Borja Gonzalez, þjálfari Þróttar, leikhlé í stöðunni 15-10, Aftureldingu í vil. Það dugði þó ekki til því Mikayla Marie Derochie gaf vel upp fyrir Aftureldingu og mistök Þróttar héldu áfram að hrannast upp og tók Þróttur sitt seinna leikhlé í stöðunni 18-10. Afturelding hélt sínu striki og sigraði hrinuna 25-15.

Áfram héldu vandræði Þróttara í þriðju hrinu og lið Aftureldingar gaf þeim enga sénsa. Í stöðunni 9-3 fyrir Aftureldingu tók þjálfari Þróttar leikhlé en það breytti litlu. Í stöðunni 18-12 fyrir Aftureldingu tóku Þróttarar áhlaup og minnkuðu muninn í 18-15. Leikurinn varð skyndilega meira spennandi og í fyrsta skipti í hrinunni myndaðist jákvæð stemning hjá Þrótti. Þróttarar létu þetta ekki duga og eftir leikhlé Aftureldingar skoruðu þær þrjú stig til viðbótar og jöfnuðu leikinn, 18-18. Lokaspretturinn var æsispennandi og náði Þróttur að halda sér á lífi með því að sigra 24-26, eftir ótrúlega baráttu.

Þróttur hélt áfram að spila vel í fjórðu hrinunni og náði 10-15 forystu um miðja hrinuna. Lið Aftureldingar gafst þó ekki upp og hélt í við Þróttara alveg fram að síðustu stigum hrinunnar. Munurinn reyndist þó of mikill og tryggði Þróttur sér oddahrinu með því að sigra hrinuna 20-25. Þróttur byrjaði oddahrinu mun betur og náði 1-5 forystu áður en þjálfari Aftureldingar tók leikhlé. Spil liðanna breyttist lítið við það og skiptu liðin um helminga í stöðunni 3-8 fyrir Þrótt. Munurinn hélt bara áfram að aukast og sigraði Þróttur hrinuna 7-15, og þar með leikinn 3-2.

Stigahæst í liði Þróttar var Heiða Elísabet Gunnarsdóttir, en hún skoraði 17 stig í leiknum. Hjá Aftureldingu var Haley Hampton atkvæðamest með 25 stig. Eftir leikinn er Þróttur á toppi deildarinnar með 29 stig eftir 11 leiki en Afturelding situr í öðru sætinu með 24 stig eftir 10 leiki. Afturelding spilar næst heimaleik gegn Stjörnunni þann 16. janúar en Þróttur Neskaupstað leikur einnig gegn Stjörnunni 26. janúar og fer leikurinn fram í Garðabæ.