[sam_zone id=1]

Miguel Mateo allt í öllu í sigri Þróttar á Aftureldingu

Í dag mættust Afturelding og Þróttur Neskaupstað í Mizunodeild karla, en leikurinn fór fram í Varmá. Liðin mætast tvisvar um helgina og var fyrri viðureignin spiluð í dag en seinni leikurinn fer fram á morgun, sunnudag.

 

Leikurinn var hnífjafn til að byrja með og var jafnt 10-10 í fyrstu hrinunni. Þá tóku Þróttarar yfir og sigruðu hrinuna að lokum 18-25. Hrina 2 var einnig nokkuð jöfn en gestirnir frá Neskaupstað höfðu þó alltaf 2-3 stiga forystu. Lið Aftureldingar náði Þrótturum aldrei og sigruðu gestirnir hrinuna 20-25, og þar með komnir í góða stöðu, 2-0 yfir. Lið Aftureldingar gafst þó ekki upp og eftir erfiða byrjun í þriðju hrinu komust þeir yfir og leiddu stóran hluta hrinunnar. Þeir héldu þó ekki út og stálu Þróttarar hrinunni með góðum kafla í lokin. Þróttur vann hrinuna 21-25 og sigraði leikinn þar með 3-0.

Í liði Aftureldingar voru Felix Þór Gíslason og Alexander Stefánsson atkvæðamestir, en Felix skoraði 10 stig og Alexander 9. Miguel Mateo Castrillo var langstigahæstur í liði Þróttar en hann skoraði 29 stig í leiknum. Einnig átti frelsingi Þróttara, Ragnar Ingi Axelsson, góðan leik, þá sérstaklega í móttöku.

Þróttarar sitja í fjórða sæti deildarinnar eftir leikinn, með 8 stig eftir 7 leiki. Önnur lið hafa spilað 8 eða 9 leiki og því geta þeir nálgast efstu lið deildarinnar með öðrum sigri á morgun. Afturelding situr á botni deildarinnar með 3 stig eftir 9 leiki. Liðin mætast aftur á morgun en sá leikur hefst klukkan 12 í Varmá.