[sam_zone id=1]

Þróttur Nes sigraði HK í hörkuleik

Í kvöld mættust íslandsmeistarar HK og topplið Þróttar Nes í Mizunodeild kvenna. Leikurinn fór fram í Kópavogi og var æsispennandi.

 

Fyrir leikinn var lið Þróttar í efsta sæti deildarinnar með eins stigs forskot á Aftureldingu, en þau tvö lið mætast einmitt í Varmá á morgun. Þróttur bætti auk þess við sig sterkum leikmanni í jólafríinu þegar Helena Kristín Gunnarsdóttir sneri aftur til landsins eftir dvöl í Bandaríkjunum. Þessi helgi er gríðarlega mikilvæg fyrir lið Þróttar og ljóst að 6 stig myndu setja liðið í frábæra stöðu og byrjaði áskorunin á liði HK, sem fyrir leikinn var í fjórða sæti deildarinnar.

Heimakonur í HK byrjuðu leikinn betur og höfðu yfirhöndina stóran hluta hrinunnar, en lið Þróttar var þó aldrei langt frá. Eftir að staðan var jöfn 12-12 sigu HK fram úr með góðum uppgjöfum og sýndi liðið mikinn stöðugleika í hrinunni. HK sigraði hrinuna 25-20. Annað var uppi á teningnum í hrinu 2. Þróttarar spiluðu töluvert betur en í þeirri fyrstu og náðu að hrista lið HK af sér um miðbik hrinunnar. HK náði mest að minnka muninn í 11-12 en þá tóku Þróttarar alveg yfir og sigruðu mjög örugglega, 20-25, þrátt fyrir örlitla mótspyrnu HK í lok hrinunnar.

Hrina 3 var stórskemmtileg og mikil spenna ríkti alla hrinuna. Staðan var 16-17 fyrir Þrótt þegar lið HK skoraði 5 stig í röð og breytti stöðunni í 21-17, sér í vil. Gestirnir gáfust þó ekki upp og náðu að lokum að knýja fram 24-26 sigur og voru þar með komnar í lykilstöðu, 2-1 yfir fyrir fjórðu hrinu. Sú hrina var jafn spennandi og sú þriðja og hafði HK 8-4 forystu snemma. Það breyttist þó á stuttum tíma og allt í einu var lið Þróttar komið 15-10 yfir. HK náði að halda sér inni í leiknum en Þróttur kláraði hrinuna þó 22-25 og sigraði leikinn þar með 3-1.

Stigahæstu leikmenn leiksins voru Hjördís Eiríksdóttir sem skoraði 24 stig fyrir HK og Paula Del Olmo Gomez, en hún skoraði 15 stig fyrir Þrótt úr Neskaupstað. Þær voru jafnframt valdar Lemon-leikmenn leiksins, en Paula var einnig sérstaklega sterk í móttöku í leiknum.

Lemon leikmenn leiksins með gjafabréf frá Lemon (Mynd: Arnar Birkir Björnsson)

Á morgun mætir lið Þróttar Aftureldingu í stórleik, en liðin eru í efstu tveimur sætum deildarinnar. HK, sem situr enn í fjórða sæti deildarinnar eftir leikinn, mætir næst Völsungi á Húsavík en leikurinn fer fram þann 17. janúar næstkomandi.