[sam_zone id=1]

Afturelding sigraði HK

Í kvöld fór fram leikur HK og Aftureldingar í Mizunodeild kvenna. Leikir liðanna hafa oft á tíðum verið spennandi og var því mikil eftirvænting fyrir þessum leik.

 

Afturelding byrjaði leikinn af miklum krafti og leiddu strax 6-1 í fyrstu hrinu. Lið HK vaknaði þá og náði að jafna leikinn í stöðunni 10-10. Afturelding leiddi mestan hluta hrinunnar en munurinn var þó aldrei mikill. Þær sigu svo fram úr í lok hrinunnar og sigruðu hana 25-21. Önnur hrina var gríðarlega jöfn og spennandi og varð munurinn aldrei meiri en 3 stig. Lið Aftureldingar kom sér í góða stöðu í lok hrinunnar, en þá leiddi liðið 23-22. HK skoruðu svo síðustu 3 stig hrinunnar og unnu 25-23. Leikurinn var þar með orðinn jafn og þriðja hrinan gríðarlega mikilvæg fyrir framhaldið.

Afturelding virtist ætla að klára leikinn en framan af þriðju hrinunni höfðu þær mikla yfirburði. Í stöðunni 16-10 tók lið HK sig rækilega á og var allt í einu komið 19-17 yfir. Sveiflurnar í hrinunni voru miklar og náði Afturelding yfirhöndinni aftur með góðum hávörnum og sigruðu hrinuna 25-21. Í fjórðu hrinunni leit lið HK út fyrir að hafa gefist upp, en Afturelding leiddi allan tímann og sigraði örugglega, 25-13, og þar með leikinn 3-1.

Stigaskor leikmanna dreifðist nokkuð vel í leiknum en hjá Aftureldingu skoruðu Haley Hampton og Velina Apostolova 16 stig hvor og Fjóla Rut Svavarsdóttir bætti við 13 stigum, þar af 7 úr hávörn. Hjördís Eiríksdóttir var atkvæðamest í liði HK en hún skoraði 17 stig. Blakdeild HK valdi leikmenn leiksins úr hvoru liði og hljóta þeir titilinn Lemon-leikmenn leiksins, og fá gjafabréf á veitingastaðinn Lemon. Í kvöld þóttu Steinunn Helga Björgólfsdóttir (HK) og Mikayla Marie Derochie (UMFA) standa sig best og hlutu titilinn.

Með sigrinum komst Afturelding á topp deildarinnar með 20 stig eftir 8 leiki. Þróttur Neskaupstað kemur þar skammt á eftir með 18 stig eftir 7 leiki og Stjarnan situr í þriðja sætinu með 16 stig eftir 7 leiki. Toppbaráttan er því mjög hörð. Lið HK situr í fjórða sæti deildarinnar með 12 stig eftir 9 leiki, en í þremur neðstu sætunum eru lið Völsungs, KA og Þróttar Reykjavíkur með 5 stig hvert. Lið Aftureldingar og HK mætast aftur fyrir áramót, en liðin leika í Varmá þann 12. desember, og eru það síðustu leikir liðanna fyrir jólafrí.