[sam_zone id=1]

Stjörnusigur í Mosfellsbæ

Afurelding fékk Stjörnuna í heimsókn í Mizundeild karla í kvöld.

Liðin mættust síðast fyrir viku síðan og bar Afturelding sigur úr býtum í þeirri viðureign, 2-3. Sagan var önnur í kvöld þar sem Stjarnan sigraði, 3-1.

Stjarnan hóf leikinn af krafti og með því að skora 8 stig í röð í upphafi fyrstu hrinu komust þeir í 10-2. Þökk sé sterkum uppgjöfum Aftureldingar náðu þeir að minnka muninn í 20-19 en nær komust þeir ekki og lauk hrinunni með 25-22 sigri Stjörnunnar.

Þökk sé mörgum mistökum Stjörnunnar fram að miðri annarri hrinu leiddu Afturelding fram að stöðunni 12-17. Þá snerist dæmið við og gerði Afturelding mikið af mistökum og hleypti Stjörnunni loks fram úr sér. Annarri hrinunni lauk líkt og þeirri fyrstu með 25-22 sigri Stjörnunnar og þeir því komnir 2-0 yfir í hrinum.

Afturelding spilaði vel í þriðju hrinunni og unnu sér fljótt inn gott forskot. Það létu þeir aldrei af hendi og unnu hrinuna að lokum með 9 stiga mun, 16-25 og staðan því orðin 2-1 fyrir Stjörnunni.

Fjórða hrinan var sú jafnasta í leiknum en þó var Stjarnan alltaf skrefi á undan. Afturelding jafnaði í stöðunni 16-16 en þökk sé þremur stigum úr uppgjöf hjá Stjörnunni undir lokin vann Stjarnan hrinuna 25-22 og leikinn þar með 3-1.

Radosław Rybak var stigahæstur Aftureldingar með 17 stig en 3 leikmenn Stjörnunnar skoruðu 15 stig. Það voru þeir Michael Pelletier, Benedikt Baldur Tryggvason og Kristófer Björn Ólason Proppé.

Með sigrinum jafnar Stjarnan við KA í öðru sæti deildarinnar með 15 stig en Afturelding vermir botnsætið með 3 stig.

Mynd eftir A&R Photost