[sam_zone id=1]

Riðlakeppni Meistaradeildar karla hafin

Fyrstu leikirnir í riðlakeppni Meistaradeildar karla fóru fram í kvöld. Lið Sastamala frá Finnlandi sigraði óvænt á heimavelli.

 

B riðill

Einn leikur fór fram í B-riðli, en það var viðureign Ford Store Levoranta Sastamala og PAOK Thessaloniki, en leikurinn fór fram á heimavelli Sastamala í Finnlandi. Aldrei fyrr hefur lið frá Norðurlöndunum komist í riðlakeppni Meistaradeildar karla svo að leikurinn var sögulegur fyrir liðið. Heimamenn byrjuðu leikinn vel og komust í 1-0 með 25-19 sigri í fyrstu hrinu. Næstu tvær hrinur voru æsispennandi og fóru báðar í upphækkun. Annarri hrinu lauk 27-29 og þeirri þriðju 33-35. Þar með voru Thessaloniki komnir í góða stöðu, 2-1 yfir í hrinum talið.

Leikmenn Sastamala gáfust ekki upp og fjórða hrinan varð stórskemmtileg, eins og leikurinn allur. Henni lauk með 25-23 sigri heimaliðsins og leikurinn fór því í oddahrinu. Í henni náðu Finnarnir að nýta sér heimavöllinn og sigldu 3-2 sigri heim með því að vinna hrinuna 15-11. Leikurinn var tæplega þrír klukkutímar að lengd og voru samtals spiluð 242 stig. Því tryggðu heimamenn sér magnaðan sigur fyrir framan 2600 áhorfendur, í sínum fyrsta leik í keppninni.

Ford Store Levoranta Sastamala 3-2 PAOK Thessaloniki (25-19, 27-29, 33-35, 25-23, 15-11). Stigahæstur í liði Thessaloniki var Ramon Martinez Gion með 31 stig en Urpo Sivula skoraði 28 stig fyrir heimamenn í Sastamala.

E riðill

Einnig fór einn leikur fram í þessum riðli en þar komu Trentino Diatec frá Ítalíu í heimsókn til Belgíu þar sem þeir mættu Noliko Maaseik. Fyrir leikinn var búist við nokkuð þægilegum sigri Trentino og varð það raunin. Fyrsta hrinan vannst auðveldlega, 17-25, en Maaseik slógu frá sér í næstu tveimur. Liðin skiptust þar á því að sigra 25-23 og staðan því orðin 2-1 fyrir Trentino. Þeir kláruðu svo leikinn með öruggum 17-25 sigri í fjórðu hrinunni, og leikinn þar með 3-1.

Noliko Maaseik 1-3 Trentino Diatec (17-25, 23-25, 25-23, 17-25). Stigahæstur í liði Maaseik voru Jelte Maan og Nicolas Bruno með 12 stig hvor. Renee Teppan skoraði 19 stig fyrir Trentino.

Simone Giannelli (9) spilar upp og hinn brasilíski Eder (16) gerir sig líklegan til að smassa.

Fyrsta umferð keppninnar heldur áfram á morgun og lýkur á fimmtudag. Í heildina eru spilaðir 10 leikir í hverri umferð, en riðlarnir eru 5 talsins. Vefsíðan LAOLA1.tv sýnir reglulega frá blakleikjum í hinum ýmsu evrópukeppnum og Meistaradeildin er engin undantekning. Á morgun verða 5 leikir í beinni útsendingu á síðunni og þar ber hæst slagur ítölsku liðanna tveggja í A riðli, Sir Colussi Sicoma Perugia og Cucine Lube Civitanova.