[sam_zone id=1]

Örebro með góðan heimasigur

Örebro tók á móti Linköping um helgina og unnu þar góðan sigur á heimavelli 3-1 og halda þar með í við efstu lið deildarinnar.

Leikurinn byrjaði þó ekki vel hjá Örebro þar sem Linköping skoruðu fyrstu þrjú stig leiksins. Linköping voru síðan sterkari nánast alla hrinuna og leiddu meðal annars 16-11 í öðru tæknihléi. Örebro var þó ekki á því að gefast upp og þær söxuðu á forskot Linköping. Í stöðunni 22-22 voru það síðan heimastúlkur sem voru sterkari og unnu hrinuna 25-23.

Örebro voru staðráðnar í því að byrja ekki svona illa aftur og þær byrjuðu aðra hrinuna frábærlega og komust í 6-0. Linköping náði aðeins að minnka muninn um miðja hrinu en náðu þó ekkert að ógna Örebro af neinu ráði og sigraði Örebro aðra hrinuna örugglega 25-18.
Örebro virtist síðan ætla að sigra þennan leik örugglega en þær byrjuðu þriðju hrinuna einnig af krafti og leiddu með sex stigum í öðru tæknihléi. Linköping gáfust hinsvegar ekki upp og eftir æsispennandi lokasprett hafði Linköping að lokum sigur eftir upphækkun 25-27.

Örebro voru ekki sáttar með að tapa niður þessu forskoti og tapa hrinunni því þær mættu mjög ákveðnar til leiks í fjórðu hrinu. Þær náðu fljótt góðu forskoti og leiddu mest með 12 stigum 16-4 í hrinunni. Hrinan endaði síðan með öruggum sigri Örebro 25-15 og þar með unnu þær leikinn 3-1.

Jóna var að vanda í byrjunarliði Örebro og stóð hún sig mjög vel í leiknum og var stigahæst á vellinum með 18 stig.

Hér má sjá nánari tölfræði úr leiknum.