[sam_zone id=1]

Stórleikur í Mizunodeild kvenna í kvöld

Stórleikur fer fram í kvöld í Mizunodeild kvenna þegar Stjarnan tekur á móti Aftureldingu kl 19:30 á Álftanesi. Stjarnan situr í öðru sæti deildarinnar með 11 stig eftir fjóra leiki, en Afturelding er í þriðja sæti deildarinnar með 10 stig. Það er því ljóst að bæði liðin þurfa á sigri að halda til þess að halda í við Þrótt Nes sem sitja á toppi deildarinnar með fullt hús stiga.

Liðin hafa aðeins mæst einu sinni á þessu tímabili, en það var á Haustmóti BLÍ í september. Afturelding fór þá með nokkuð auðveldan 2-0 sigur (25-17, 25-11). Síðan þá hefur Stjarnan  hins vegar bætt við sig sænsku landsliðskonunni Sofie Sjöberg, og Afturelding hefur misst Maríu Rún Karlsdóttur vegna meiðsla. Leikurinn í kvöld ætti því að vera mjög jafn og spennandi.

Zdravko Demirev aðaldómari leiksins flautar leikinn í gang kl 19:30, en honum til aðstoðar verður Jón Ólafur Valdimarsson. Blakfréttir.is hvetur allt blakáhugafólk til þess að mæta á völlinn, en fyrir þá sem ekki komast er leikurinn sýndur á Sporttv.is.

Stjarnan

Stjarnan hefur sigrað alla leikina sína á þessu tímabili, en þrátt fyrir það eru þær ekki með fullt hús stiga. Stjörnustúlkur sigruðu KA í oddahrinu (11-25, 11-25, 25-20, 25-19, 7-15) og misstu þær því eitt dýrmætt stig. Fyrir þann leik hafði Stjarnan ekki misst neina hrinu og sigrðu því Þrótt Reykjavík tvisvar sinnum 3-0, og HK einu sinni 3-0.

Stigahæsti leikmaðurinn í liði Stjörnunnar er Rosilyn Rae Cummings, með 4 stig skoruð að meðaltali í hverri hrinu. Best sóknarmaðurinn er hins vegar Sofie Sjoberg, með 3.7 sóknarstig í hrinu og 79% sóknarnýtingu.

Afturelding

Afturelding hefur spilað fjóra leiki í Mizunodeildinni á þessu tímabili, en þær hafa unnið þrjá og tapað einum. Mosfellsbæingarnir sigruðu alla þrjá leikina 3-0, en það voru tveir leikir á móti Þrótt Rvk. og einn leikur á móti HK. Afturelding tapaði hins vegar óvænt fyrir Völsung 3-2 (14-25, 25-15, 19-25, 25-21, 15-13) sem kostaði liðið tvö dýrmæt stig.

Stigahæsti leikmaðurinn í liði Aftureldingar er Haley Rena Hampton, með 3.9 skoruð stig í hrinu að meðaltali. Haley er einnig besti sóknarmaðurinn í liðinu með 77% sóknarnýtingu.