[sam_zone id=1]

Þjálfarar spá í spilin – Mizunodeild karla

Um helgina báðum við þjálfara í Mizunodeildum karla og kvenna að segja okkur hvernig þeir spá því að úrslitin í Mizunodeildunum munu verða í ár. Svona kannanir eru oft gerðar vikulega erlendis í ýmsum íþróttum, en við ákváðum hinsvegar að prófa þetta í byrjun tímabilsins hér í blakinu á Íslandi.

Allir þjálfararnir í Mizunodeildunum tóku þátt, en taka skal fram að þjálfararnir eru ekki búnir að sjá öll liðin spila, og er þetta einungis spár sem eru byggðar á ágiskunum. Þessi könnun var því aðeins gerð til gamans. Fyrr í vikunni sögðum við frá Mizunodeild kvenna, en nú er komið að Mizunodeild karla:

KA     20 stig

Þróttur Nes 12 stig

Stjarnan 9 stig

Afturelding 7 stig

HK 6 stig

Allir þjálfarar í Mizunodeildinni settu KA í efsta sæti og eru þeir því með fullt hús stiga eða 20 stig. KA urðu síðast deildarmeistarar árið 2011, og vilja þeir eflaust bæta öðrum bikar við í safnið.

Í öðru sæti er Þróttur Neskaupstað með tólf stig. Þróttur Nes bætti við sig erlendum leikmanni fyrir tímabilið og nokkuð ljóst að þeir ættu að vera sterkari en í fyrra. Þróttur Nes hefur aldrei unnið titil í karlaflokki og því spurning hvað þeir gera í vetur.

Deildarmeistararnir frá því í fyrra eru í þriðja sæti með níu stig. Stjarnan hefur ekki bætt við sig neinum leikmönnum en hafa hinsvegar misst  eitthvað af leikmönnum. Benedikt Valtýsson fór til KA og þá eru sögur af því að Róbert Karl Hlöðversson verði ekki með í vetur.

Afturelding er í fjórða sæti með sjö stig. Bikarmeistarar Aftureldingar sópuðu til sín 4 leikmönnum úr Íslandsmeistaraliði HK og nokkuð ljóst að liðið ætlar sér stóra hluti í vetur. Afturelding náði sér í sinn fyrsta titil í fyrra þegar liðið varð Bikarmeistari og spurning hvort þeim takist að næla sér í annan titil í vetur.

Íslandsmeistarar HK fengu sex stig og er þeim spáð neðsta sæti í deildinni. HK endaði í 2. sæti í deildarkeppninni í fyrra og nokkuð ljóst að þeir vilja gera betur í ár. HK hefur orðið Íslandsmeistari síðustu 6 ár og nokkuð ljóst að titilvörn þeirra hefst með góðum úrslitum í deildarkeppninni.

 

Nú verður gaman að fylgjast með deildini og sjá hvort að þjálfararnir reynast sannspáir. Geta liðin í lægri sætunum afsannað þetta og tryggt sér deildarmeistaratitil?

Næsti leikur í Mizunodeild karla eru á morgun 12. október. Þá fer fram leikur HK og Aftureldingar kl 19:30 í Fagralundi.