[sam_zone id=1]

HK með sigur á Aftureldingu

Í kvöld fór fram leikur HK og Aftureldingar í Mizunodeild karla. HK fóru með 0-3 (22-25, 15-25, 15-25) sigur í Mosfellsbænum, þar sem margir áhorfendur voru mættir og mikil stemning í húsinu.

Afturelding fór vel af stað í fyrstu hrinu og komust í stöðuna 11-7. Þá kom mjög góður kafli hjá liði HK þegar þeir fengu fimm stig í röð og voru því komnir yfir 11-12. Afturelding virtist samt ætla að taka hrinuna og voru þeir snöggir að koma sér aftur í góða stöðu í 18-15. En eins og áður, neituðu HK-ingarnir að tapa, og náðu að skora þrjú stig í röð og jafna í stöðunni 18-18. Liðin skiptust svo á að vera yfir þangað til HK tóku hrinuna eftir að fá fjögur stig í röð, 22-25.

Önnur byrjaði spennandi og var jafnt í stöðunni 9-9. HK menn komust svo í stöðuna 15 -18, en eftir það gekk allt upp hjá HK-ingunum. Afturelding fékk ekki fleiri stig í hrinunni og fór hrinan því 15-25. Þriðja hrinan var allan tíman í höndum HK. Það var aðeins jafnt í stöðunni 1-1, en eftir það tóku HK öll völd og hleyptu Aftureldingu ekki nálægt sér. Þeir kláruðu svo hrinuna 15-25.

Góðar móttökur hjá HK spiluðu stóran hlut í sigrinum í kvöld. Liðið var með 69% jákvæða móttöku, og voru þeir aldrei ásaðir. Afturelding voru hinsvegar ásaðir sjö sinnum.

Stigahæstur í leiknum var Gary House, leikmaður HK, með 14 stig. Gary skoraði 9 stig úr sókn, 4 úr hávörn, og einn ás. Næst stigahæstur í liði HK var Andreas Hilmir Halldórsson með 12 stig, þar af 9 stig úr sókn, 2 ása og eina hávörn. Stigahæstur í liði Aftureldingar var Alexander Stefánsson með 11 stig. Alexander skoraði 10 stig úr sókn og var með eina hávörn.

HK og Afturelding mætast aftur á fimmtudaginn kl 19:30 í Fagralundi. Það verður heimaleikur HK sem átti að spilast 3. október en leiknum var frestað.