[sam_zone id=1]

Æsispennandi fimm hrinur í Neskaupstað í kvöld!

Í kvöld fór fram ótrúlega jafn og spennandi leikur í Mizunodeild karla. Þróttur Nes fékk lið KA í heimsókn og úr varð hörkuspennandi fimm hrinu leikur. Leikurinn endaði á 3-2 sigri heimamanna (25-23, 27-25, 24-26, 24-26, 15-11).

Eins og sést á stigaskorinu í hrinunum var þetta mjög jafn og spennandi leikur, en leiktíminn var tvær klukkustundir og nítján mínútur. Þróttur Nes vann fyrstu tvær hrinurnar, en KA tók næstu tvær hrinur. Oddahrinan fór síðan 15-11 fyrir Þrótti Nes.

Miguel Mateo Castrillo, leikmaður Þróttar Nes, átti stórleik í kvöld en hann var stigahæstur í leiknum með 35 stig. Miguel skoraði 29 stig úr sókn og var með sex hávarnarstig. Næst stigahæstur í liði Þróttar var Jorge Emanuel Basualdo Castano með 18 stig, þar af 13 úr sókn, og fimm úr hávörn. Stigahæstur í liði KA var Quentin Moore með 27 stig. Quentin skoraði 25 stig úr sókn, eitt úr hávörn, og eitt úr uppgjöf.

Bæði lið KA og Þróttar Nes eru nú komin í mánaðarlanga pásu í deildinni. Þróttur Nes á næst leik 10. og 11. nóvember á móti Stjörnunni. KA á næst leik 18. og 19. nóvember á móti Aftureldingu.

Mynd: Jóhanna Hauksdóttir