[sam_zone id=1]

KA sigraði Þrótt Neskaupstað

Mizuno-deild karla hófst loksins í dag þegar lið KA tók á móti Þrótti Neskaupstað. Deildin átti að hefjast í vikunni en leik HK og Aftureldingar var frestað, svo þessi leikur er hinn fyrsti á nýju tímabili.

 

Fyrsta hrina var mjög jöfn og bæði lið ætluðu sér greinilega að vinna þennan fyrsta leik mótsins. Staðan var 18-18 þegar Sigþór Helgason fór í uppgjöf og skoraði þrjá ása í röð og breytti stöðunni í 21-18, KA í vil. Þróttarar náðu að minnka muninn aftur en hávörn KA-mann gerði mjög vel í lok hrinunnar og Akureyringar tryggðu sér 25-21 sigur.

Annað var uppi á teningnum í næstu hrinu, þar sem að KA voru sterkari. Framan af hrinu var staðan nokkuð jöfn en brátt sigu KA fram úr og unnu að lokum örugglega, 25-18.

KA hóf þriðju hrinu einnig af krafti og komust fljótt í 6-1. Þróttarar tóku þá við sér og komust yfir 12-11. Spilið orðið töluvert stöðugra sem og mistökum fjölgaði hjá KA. Jafnt var í 16-16 en þá hrukku KA enn einu sinni í gang og náðu afgerandi forystu, 20-16. Munurinn reyndist of mikill fyrir Þróttara og KA sigraði hrinuna að lokum 25-21, og þar með leikinn 3-0.

Stigahæstur í liði KA var Sigþór Helgason með 15 stig, en 7 af þeim komu beint úr uppgjöf. Miguel Mateo Castrillo skoraði einnig 15 stig fyrir Þrótt. Lið KA byrjar tímabilið því með góðum 3-0 sigri en þessi sömu lið mætast aftur á þriðjudag, þá á heimavelli Þróttar í Neskaupstað. Áhugavert verður að sjá hvort Þróttarar geti hefnt fyrir tapið í þessum leik.