[sam_zone id=1]

Mizunodeild kvenna upphitun: HK

Mizunodeild kvenna heldur áfram í dag. Við ætlum að halda áfram upphitun fyrir fyrstu leikina þar sem við förum yfir liðin og heyrum aðeins í þjálfurum liðana.

HK

HK eru ríkjandi Íslands og Deildarmeistarar en með Íslandsmeistaratitlinum var félagið að vinna sinn 15. titil. HK hefur skipst á titlum undanfarin ár við Aftureldingu og hafa liðin haft töluverða yfirburði síðustu 3-4 ár.

Titlar HK frá upphafi:

Deildarmeistarar: 1996, 2009, 2010, 2012, 2017
Bikarmeistarar: 2003, 2009, 2010, 2013, 2014
Íslandsmeistarar: 1995, 2009, 2010, 2015, 2017

HK endaði sem Deildarmeistari á síðasta tímabili eftir harða baráttu við Aftureldingu. HK endaði deildina með 50 stig og fór í gegnum deildarkeppnina án þess að tapa leik. HK vann hinsvegar fjóra leiki í oddahrinu og tapaði því nokkrum stigum á því. Þrátt fyrir að Afturelding hafi aðeins verið 3 stigum fyrir aftan HK þá tapaði Afturelding 3 leikjum. HK tapaði svo gegn Aftureldingu í úrslitum Kjörísbikarsins en hefndi hinsvegar fyrir tapið í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.

 

Viðtal

Við heyrðum aðeins í þjálfara liðsins, Emil Gunnarssyni og spurðum hann nokkura spurninga.

Nú hefur HK misst tvo af sínum sterkustu leikmönnum frá síðasta timabili, þær Elísabetu Einarsdóttir sem spilar í Sviss í vetur og svo Fríða Sigurðardóttir sem lagði skóna á hilluna. Þá hefur Guðbjörg Valdimarsdóttir haldið til Danmerkur í skóla og Birta Björnsdóttir mun ekki spila með liðinu i vetur. Hvernig hefur gengið að fylla í þessi skörð ? Eru fleiri leikmenn sem hafa yfirgefið félagið ?

Það er sterkur og um leið mjög efnilegur leikmannahópur í HK á þessari leiktíð. Leikmennirnir sem eru farnir eru samt sem áður ekki á hverju strái og voru til dæmis algjörir burðarásar í íslenska landsliðinu á síðasta ári, svona skörð eru ekki fyllt svo auðveldlega. Leikmönnum HK bíður það verkefni búa til nýtt og spennandi lið.

Nú gekk María Rún Karlsdóttir til liðs við Aftureldingu, það er nokkuð ljóst að hún hefði orðið gífurlegur liðsstyrkur og komið til með að fylla vel í það skarð sem Elísabet Einarsdóttir skildi eftir, var einhvað reynt að ná í hana ?

Að sjálfsögðu hefði HK viljað fá Maríu Rún í sínar raðir en við virðum hennar ákvörðun að fara til Aftureldingar og óskum henni góðs gengis þar.

Nú gekk Herborg Vera Leifsdóttir aftur til liðs við HK, er von á frekari liðsstyrk ? Hefur HK skoðað það að fá til liðsins erlendan leikmann líkt og önnur lið hafa verið að gera ?

Herborg er liðsstyrkur fyrir okkur og getur spilað díó, kant og miðju. Erlendur leikmaður er ekki inni í myndinni eins og er.

Nú eruð þið ríkjandi Deildar og Íslandsmeistarar, hver eru markmið vetrarins ?

Markmið vetrarins eru að vaxa eins mikið og mögulegt er. Að leika eftir það sem var gert á síðasta ári er ósanngjarnt að gera kröfu um.

Hver telur þú að verði ykkar helsti keppinautur í vetur ?

Afturelding er líklega með öflugasta liðið eins og staðan er núna en ég gæti trúað því að mörg lið komi til með að sýna klærnar í vetur og geri ráð fyrir spennandi deild og mörgum óvæntum úrslitum.

 

Leikmannahópur HK

Leikmannahópur HK er sennilega sá hópur sem hefur tekið hvað mestum breytingum frá því á síðasta tímabili. Alls eru 4 leikmenn horfnir úr byrjunarliðinu frá síðasta tímabili, þær Elísabet Einarsdóttir, Fríða Sigurðardóttir, Birta Björnsdóttir og Laufey Björk Sigmundsdóttir sem hefur lítið æft. Þá er Hjördís Eiríksdóttir að spila allt aðra stöðu og mætti því telja það sem breytingu líka. Leikmannahópur HK mun því skipa ungar og efnilegar stelpur sem fá kjörið tækifæri til að stíga upp.

Vert að fylgjast með

Matthildur Einarsdóttir er leikmaður sem verður fróðlegt að fylgjast með í vetur, Matthildur er yngri systir Elísabetar og hefur verið í skugga hennar hingað til. Núna fær hún hinsvegar kjörið tækifæri til að stíga upp og mun án efa mikið mæða á henni í vetur. Matthildur var án efa besti leikmaður HK í leik í Meistarakeppni BLÍ á dögunum þar sem HK tapaði 3-0 fyrir Aftureldingu.

Matthildur Einarsdóttir

Komnar:

Herborg Vera Leifsdóttir – Stjarnan
Elsa Sæný Valgeirsdóttir – Stjarnan

Farnar:

Elísabet Einarsdóttir – Volley Lugano (Sviss)
Guðbjörg Valdimarsdóttir – Danmörk
Fríða Sigurðardóttir – Hætt
Alexandra Agata – Afturelding

Ekki með í vetur:

Birta Björnsdóttir

 

Leikmannahópur HK 2017/2018

1 – Sara Ósk Stefánsdóttir
2 – Hjördís Eiríksdóttir , Fyrirliði
3 – Matthildur Einarsdóttir
4 – Edda Björk Ásgeirsdóttir
5 – Hanna María Friðriksdóttir
7 – Amelía Rún Jónsdóttir
8 – Herborg Vera Leifsdóttir
9 – Laufey Björk Sigmundsdóttir
11 – Sigríður Gísladóttir
12 – Líney Inga Guðmundsdóttir
13 – Elsa Sæný Valgeirsdóttir
14 – Birta Rós Þrastardóttir
15 – Steinunn Helga Björgólfsdóttir