[sam_zone id=1]

HK sigraði Aftureldingu í Meistarakeppni BLÍ

HK hóf tímabilið með draumabyrjun í dag þegar þeir sigruðu Aftureldingu í Meistarakeppni BLÍ. Íslandsmeistarar HK sigruðu Bikarmeistara Aftureldingar 3-0 (25-23, 26-24, 25-18). Stigahæstur í liði HK var Gary House með 14 stig, en stigahæstur í leiknum var Alexander Stefánsson, leikmaður Aftureldingar, með 15 stig.

Nýjung hjá Blaksambandinu

Meistarakeppni BLÍ er nýjung hjá Blaksambandinu. Keppnin byggir á því að Íslandsmeistarar og Bikarmeistarar síðasta tímabils keppi um meistaratitil í upphafi tímabilsins. Þetta er skemmtileg leið til þess að marka upphaf tímabilsins. Blakfréttir vona að það verði haldið í þessa hefð á næstu árum, gefið það að sama lið verði ekki Íslands- og Bikarmeistari.

Nýtt tímabil, ný lið

Bæði liðin eru gjörbreytt frá því á síðasta tímabili.HK hefur misst nokkra lykilleikmenn frá því í fyrra en fjórir HK-ingar skiptu yfir í Aftureldingu eftir síðasta tímabil, en það voru Kjartan Fannar Grétarsson, Felix Þór Gíslason, Marteinn Möller, og Andris Orlovs. Einnig fór Theódór Óskar Thorvaldsson frá HK og til Tromso í Noregi. HK hefur hins vegar bætt við sig Martin Marinov, Bjarka Benediktssyni, Sergej Diatlovic, og atvinnumanninum Gary House.

Eins og áður var nefnt fékk Afturelding til sín fjóra HK-inga áður en tímabilið hófst. Afturelding missti hinsvegar Antonio Burgal úr liði sínu. Piotr Kempisty hefur einnig lagt skóna á hilluna. Annars er lið Aftureldingar það sama og í fyrra.

Afturelding – HK

HK og Afturelding mættust fimm sinnum á síðasta tímabili. Fjórum sinnum í deildinni, og einu sinni á Haustmóti BLÍ. Afturelding sigraði tvo leiki, á meðan HK sigraði þrjá.

Liðin hafa nú þegar mæst á þessu tímabili á Haustmóti BLÍ, en þá sigraði HK 2-0 (25-17, 25-21). Með sigrinum í dag geta HK-menn farið inn í Mizunodeildina með aukið sjálfsöryggi. Liðin mætast næst þann 3. október í Mizunodeildinni kl 20:30 í Fagralundi.