[sam_zone id=1]

WGCC 2017: Íran sigraði Bandaríkin og er eina ósigraða lið keppninnar

Annar leikdagur World Grand Champions Cup var í dag. Aftur sigraði Íran eftir fimm hrinur.

 

Brasilía – Ítalía

Fyrsti leikur dagsins var á milli liðanna sem mættust í úrslitum á síðustu Ólympíuleikum, Ítalíu og Brasilíu. Brasilía vann sinn leik í gær á meðan að Ítalir þurftu að sætta sig við 3-2 tap. Í byrjun leiks leit út fyrir að þreytan síðan í gær myndi segja til sín og Brasilía fór auðveldlega í gegnum fyrstu hrinuna og unnu hana 25-15. Þá vöknuðu Ítalir þó og leikurinn var allt í einu orðinn æsispennandi. Fór svo að Ítalir sigruðu næstu tvær hrinurnar, 27-25 og 27-25, en Brasilíumenn tryggðu sér oddahrinu með 25-18 sigri í 4. hrinu. Oddahrinan var mjög jöfn en í stöðunni 10-10 gáfu Ítalir í. Luca Vettori fór mikinn og þeir náðu 14-11 forskoti. Ricardo Lucarelli fór svo í uppgjöf fyrir Brasilíu í stöðunni 12-14 en uppgjöfin fór í netið og Ítalir sigruðu leikinn, 3-2.

Bandaríkin – Íran

Bandaríkin byrjuðu leikinn mjög vel og unnu tvær fyrstu hrinurnar mjög örugglega, 25-20 og 25-17. Íran náði að koma sér í gang í þriðju hrinunni og rétt náðu að bjarga leiknum með 27-25 sigri. Í 4. hrinunni spiluðu leikmenn Íran stórkostlega og unnu 25-21. Í oddahrinunni héldu Íranir svo uppteknum hætti og sigruðu 15-12 og leikinn þar með 3-2. Annar 3-2 sigur Íran á tveimur dögum staðreynd.

Japan – Frakkland

Fyrsta hrina í leik Japan og Frakklands var algjör einstefna og sigruðu Frakkar auðveldlega, 25-15. Eftir þetta vöknuðu Japanir til lífsins og gerðu allt sem þeir gátu gegn sterku liði Frakklands. Frakkarnir reyndust þó of sterkir í lok hrinanna og sigruðu næstu tvær 25-23 og 25-23, og þar með lauk leiknum 3-0.

 

Úrslit dagsins

3:40 Brasilía 2-3 Ítalía (25-15, 25-27, 25-27, 25-18, 12-15). Luca Vettori átti stórleik fyrir Ítalíu og skoraði 27 stig. Wallace de Souza skoraði 19 stig fyrir Brasilíu. Bæði lið hafa þar með sigrað einn leik og tapað einum á mótinu.

6:40 Bandaríkin 2-3 Íran (25-20, 25-17, 25-27, 21-25, 12-15). Stigahæstur í liði Íran var Milad Ebadipour með 18 stig. Matt Anderson og Taylor Sander skoruðu báðir 17 stig fyrir Bandaríkin. Íranir hafa unnið báða leiki sína hingað til 3-2 en Bandaríkin hafa nú sigrað einn og tapað einum.

Trevor Clevenot (5) smassar gegn hávörn japanska liðsins í dag.

10:15 Japan 0-3 Frakkland (15-25, 23-25, 23-25). Stigahæstu leikmenn Frakklands í leiknum voru þeir Trevor Clevenot og Bart Chinenyeze með 14 stig hvor. Japaninn Takashi Dekita skoraði 14 stig. Japanir eiga enn eftir að sigra leik á mótinu en Frakkar hafa nú unnið einn leik og tapað einum.

Á morgun verður frídagur í mótinu þar sem skipt verður um keppnisstað. Hingað til hafa leikirnir farið fram í borginni Nagoya en síðustu þrjá keppnisdagana verður spilað í Osaka. Eina ósigraða lið keppninnar er lið Íran sem hefur unnið báða leiki sína 3-2. Japanir eru aftur á móti eina liðið sem er án sigurs en þeir eiga enn eftir að sigra hrinu.

Leikir föstudags

3:40 Íran – Brasilía                                                                                                                                                                 6:40 Frakkland – Bandaríkin                                                                                                                                               10:15 Ítalía – Japan