[sam_zone id=1]

Segir Haustmótið til um hverjir verða Íslandsmeistarar?

Haustmót Blaksambands Íslands fer fram í Fagralundi um helgina. Haustmótið markar upphaf tímabilsins og er hægt að nota mótið til þess að sjá hvernig úrvalsdeildarliðin koma til með að líta út um veturinn. Blakfréttir.is skoðaði tölfræðina 10 ár aftur í tímann, og bar saman hvort að liðin sem urðu Haustmótsmeistarar hafi orðið Íslandsmeistarar á sama tímabili.

Lið HK varð Haustmóts- og Íslandsmeistari á síðasta tímabili

Haustmótsmeistari kvenna

HK og Afturelding eru einu liðin kvennamegin til þess að vinna Haustmótið á síðustu tíu árum. Lið HK hefur unnið sex titla, og Afturelding fjóra.

Á síðustu tíu árum hefur lið fjórum sinnum orðið bæði Haustmóts- og Íslandsmeistari á sama tímabili kvennamegin. Það gerði HK árið á tímabilunum 2016-2017, 2009-2010 og 2008-2009, og Afturelding á 2015-2016 tímabilinu.

Haustmótsmeistari karla

Sigurvegarar Haustmótsins hjá körlunum eru mun fjölbreyttari en hjá konunum. Á síðustu 10 árum hafa  sex mismunandi lið orðið Haustmótsmeistarar. Á þessum tíu árum hefur Afturelding, KA, Þróttur Reykjavík, Stjarnan, og U19 landslið Íslands öll unnið mótið einu sinni, en HK hefur unnið fimm sinnum.

Á síðustu tíu árum hafa Haustmótsmeistararnir orðið Íslandsmeistarar sjö sinnum á sama tímabili. HK varð Haustmóts- og Íslandsmeistari á tímabilunum 2015-2016, 2013-2014, 2012-2013, og 2011-2012. KA var Íslands- og Haustmótsmeistari á 2009-2010 tímabilinu, Þróttur Reykjavík á 2008-2009 tímabilinu, og Stjarnan á 2007-2008 tímabilinu.

Hvað ætli gerist um helgina?

Hjá körlunum hafa Haustmótsmeistararnir orðið Íslandsmeistarar í 70% tilvika á síðustu tíu árum. Hjá konunum hefur það gerst í 40% tilvika. Hvað ætli gerist í ár? Við hvetjum alla blak unnendur að mæta í Fagralund um helgina og fylgjast með.