[sam_zone id=1]

Valþór Ingi Karlsson til liðs við ASV Århus

Valþór Ingi Karlsson, leikmaður KA, hefur náð samkomulagi við lið ASV í Århus um að leika með liðinu á komandi tímabili.

 

Valþór hefur leikið með liði KA alla tíð en heldur nú út til Danmerkur og mun spila með ASV í efstu deildinni þar í landi. Á síðustu leiktíð endaði liðið í 3. sæti í deildinni, en 6 efstu liðin fara í umspil um meistaratitilinn. Liðið komst þó ekki í úrslitaleikinn að þessu sinni. Valþór útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri nú í sumar og ætlar, auk þess að spila með ASV, að stunda nám við háskólann í Århus.

Valþór hefur verið einn af burðarstólpum KA síðustu ár en hann er mjög fjölhæfur leikmaður sem getur leyst margar stöður. Aðallega leikur hann þó sem frelsingi eða uppspilari. Hann og liðsfélagar hans í KA hafa gert vel undanfarin ár og standa þar hæst bikarmeistaratitlar þeirra, sem eru 5 talsins síðan 2010, Valþór spilaði þá mjög stórt hlutverk í síðustu tveimur titlum sem unnust árin 2015 og 2016. Valþór var svo sæmdur þeim mikla heiðri að vera valinn íþróttamaður KA 2016 en hann var vel að þeim verðlaunum kominn þar sem hann var lykilmaður í liðinu sem varð bikarmeistari og fékk silfurverðlaun á Íslandsmótinu.