[sam_zone id=1]

Hildur Davíðsdóttir til Pace University

Hildur Davíðsdóttir sem hefur leikið með KA síðustu fjögur tímabil hefur skrifað undir samning hjá háskólablakliðinu í Pace University í Bandaríkjunum. Hildur lenti í Bandaríkjunum í gær en undirbúningstímabilið hefst 14. ágúst.

Háskólinn Pace University er staðsettur í Pleasantville, New York, og er skólinn í annari deild NCAA (National Collegiate Athletic Association). Hildur mun stunda nám við Alþjóðastjórnun (International Management), og spila blak með háskólaliðinu.

Hildur lék díóstöðu með liði KA síðastliðinn vetur og var hún þriðja stigahæst í liði KA. Hún á að baki fimm landsleiki með A-landsliðinu og hún hefur einnig leikið með U17 og U19 unglingalandsliðunum.

Hildur Davíðsdóttir

Blakfréttir.is heyrði aðeins í Hildi:

“Þetta leggst gríðarlega vel í mig, þetta er frábært tækifæri fyrir mig bæði til að verða sterkari leikmaður en líka til að fá að kynnast ólíku fólki og öðrum menningarheimum, sem ég er mjög spennt fyrir!”

Við spurðum hana einnig um KA

“Ég hef mikla trú á KA stelpunum! Ég held að Lorenzo eigi eftir að hafa mjög góð áhrif á liðið og svo er frábært að það sé kominn nýr og sterkur uppspilari, en það skiptir rosalega miklu máli fyrir liðið, eins og sást í fyrra. Ég trúi ekki öðru en að þær nái langt þetta tímabil!”

Hildur er ekki eini leikmaðurinn sem fer frá KA á þessu tímabili en Unnur Árnadóttir mun spila í Danmörku næsta vetur. Áhugavert verður að sjá hvað Lorenzo Cianco, þjálfari liðsins, mun gera með liðið.