[sam_zone id=1]

Hafsteinn Valdimarsson til Frakklands

Blakmaður ársins síðustu þriggja ára, Hafsteinn Valdimarsson, hefur ákveðið að ganga til liðs við LISSP Calais í Frakklandi.

 

Hafsteinn spilaði með liði Waldviertel í austurrísku úrvalsdeildinni á síðastliðnu tímabili, en áður hefur hann spilað með KA á Íslandi sem og Álaborg og seinna Marienlyst í Danmörku. Waldviertel lauk keppni í deildinni í 3. sæti og fór í úrslitakeppnina í framhaldi af því. Þar endaði liðið í 4. sæti. Ljóst var snemma í sumar að Hafsteinn myndi ekki leika lengur með austurríska liðinu og þangað til nú hafa hann og umboðsmaður hans verið að meta stöðuna í Evrópu. Hafsteinn stefndi á að spila áfram á meginlandi álfunnar og gekk það eftir með þessum samning við franska liðið LISSP Calais.

Lið LISSP Calais mun leika í N2 deildinni í Frakklandi, sem telst fjórða sterkasta deildin þar í landi. Liðið féll eftir síðasta tímabil niður í N2 deildina en stefna ótrauðir að því að fara beint upp aftur. Til að gefa mynd af styrkleika deildarinnar má líta á landslið Mónakó sem leikur í deildinni og hafa verið um miðja deild þar. Landslið Mónakó lék við Ísland á Smáþjóðaleikunum í vor en sá leikur fór 3-1, Mónakó í vil. Deildin er því nokkuð sterk og ljóst að Frakkland á ekki einungis gott landslið, heldur eru þar mörg félagslið og mikil breidd.