[sam_zone id=1]

Unnur Árnadóttir til Danmerkur (Viðtal)

Unnur Árnadóttir sem hefur gegnt lykilhlutverki með KA síðastliðin ár mun spila í Danmörku á komandi tímabili. Unnur er að fara í íþróttalýðháskóla í Sønderborg þar sem hún mun æfa blak, strandblak, og fleiri íþróttir.

Unnur, sem varð fyrr í sumar stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri, stefnir á það að vera í Danmörku fram að áramótum en snúa síðan aftur í KA eftir áramót. Unnur var einn besti leikmaður KA á síðasta tímabili. Hún var stigahæst í KA síðastliðinn vetur og endaði í 5. sæti í Mizunodeildinni sem besti blokkarinn með 0,55 hávarnir í hrinu.

Unnur steig sín fyrstu skref með A-landsliði Íslands á árinu þegar hún tók þátt í Pasqua Challenge á Ítalíu með liðinu. Stelpurnar sigruðu mótið og töpuðu ekki leik. Unnur hefur einnig spilað stórt hlutverk í unglingalandsliðum Íslands.

Brottför Unnar er mikill missir fyrir KA. Áhugavert verður að fylgjast með því hvernig Lorenzo Cianco þjálfari KA mun fylla í skarð Unnar, með yngri leikmönnum eða erlendum leikmönnum. KA styrkti lið sitt á dögunum með kaupum á nýjum uppspilara.

Lið KA í fyrra. Unnur er númer 2.

Blakfréttir.is heyrði aðeins í Unni:

“Þetta leggst rosalega vel í mig. Ég er ótrúlega spennt að kynnast nýju fólki og mér finnst þetta tilvalið tækifæri til þess að stíga út fyrir þægindarammann, læra nýtt tungumál og stunda þær íþróttir sem ég elska að stunda.

Ég held að KA stelpurnar eigi eftir að koma sterkar inn á tímabilinu. Miklar breytingar eiga sér stað en ég held að Lorenzo eigi eftir að hafa góð áhrif á liðið. Ég held líka að stelpurnar eigi eftir að koma á óvart í deildinni sérstaklega þar sem þær eru að fá amerískan uppspilara en það sást vel á síðasta ári hvað það hafði góð áhrif á liðið.”