[sam_zone id=1]

Leikjaplan Íslandsmótsins í strandblaki tilbúið

Allt er að verða tilbúið fyrir stærstu helgi strandblakssumarsins á Íslandi, en Íslandsmótið verður haldið nú í vikunni.

 

Mótið hefst föstudaginn 11. ágúst og lýkur sunnudaginn 13. ágúst. Góð skráning var á mótið og er spilað í 3 deildum hjá konunum og 2 hjá körlunum. 8 lið spila í hverri deild, sem hver og ein skiptist í fyrstu í tvo riðla. Niðurröðun ræðst af stigafjölda sem safnað er yfir sumarið. Því eru þeir sigursælustu í efstu deildunum og myndast þannig góð niðurröðun hvað varðar styrk liða. Spilað verður bæði á völlum við Laugardalslaug og Árbæjarlaug, en 2 vellir eru á hvorum stað. Voru vellirnir teknir í gegn í vikunni og ættu því að vera í toppstandi þegar að mótinu kemur.

Skipulag mótsins er í höndum Þróttar Reykjavíkur og eiga þau hrós skilið fyrir aðkomu sína að mótinu, sem og gott skipulag. Lið í 2. deild kvenna og karla hefja leik á föstudeginum og klára sína leiki á laugardeginum. Þá taka við leikir hjá 1. deild karla og kvenna, ásamt 3. deild kvenna. Á sunnudeginum klárast svo leikir í 3. deild kvenna.

Mikið verður því um dýrðir í Árbænum og Laugardalnum þessa helgina og um að gera að líta við og sjá liðin spreyta sig í sandinum. Ítarlegri upplýsingar um aðkomu að völlum, leikjaniðurröðun, og þegar að því kemur, úrslit leikja, má finna á heimasíðu BLÍ, eða með því að smella hér. Einnig eru upplýsingar að finna á Facebook-síðu Strandblak.is.