[sam_zone id=1]

Brasilía eru World Grand Prix Meistarar

Brasilía var rétt í þessu að vinna gull á World Grand Prix mótinu í Nanjing í Kína. Þær sigruðu Ítalíu 2-3 (24-26, 25-17, 22-25, 25-22, 8-15) og eru World Grand Prix meistarar í tólfta skipti.

Ítalía og Brasilía skiptust á að taka hrinur í leiknum. Brasilía komst í 1-0 í hrinum, Ítalía jafnaði 1-1, Brasilía vann þá næstu og komust í 2-1. Brasilía tók 4 hrinuna og tryggðu sér inn í oddahrinu. Í oddahrinunni gekk allt upp hjá Brasilíu og ekkert hjá Ítalíu. Brasilía hreinlega valtaði yfir Ítalíu og tók síðustu hrinuna 8-15.

Stigahæst í leiknum var Paola Ogechi Egonu í liði Ítalíu með 29 stig, þar af 25 úr sókn, þrjár hávarnir og einn ás. Stigahæst í liði Brasilíu voru Tandara Caiceta og Natalia Pereira með 22 stig hvor. Tandara skoraði 19 úr sókn, átti tvær hávarnir og einn ás, á meðan Natalia skoraði 20 sóknarstig og var með tvær hávarnir.

Brasilía fagnar stigi í leiknum í dag

Serbía með bronsið

Kína og Serbía mættust í dag í bronsleiknum á World Grand Prix. Serbía hafði betur 1-3 (22-25, 25-20, 23-25, 21-25). Leikurinn var jafn og spennandi en Serbía var ákveðnari í sókn með 58 sóknarstig á móti 46 hjá Kína. Serbía skoraði einnig 11 ása í leiknum á móti þremur frá Kína.
Stigahæst í leiknum var Tijana Boskovic með 31 stig, þar af 25 úr sókn, tvær hávarnir, og fjóra ása. Stigahæst í liði Kína var Ting Zhu með 19 stig, þar af 17 sóknarstig og tvær hávarnir.

Lið Serbíu fagnar í lok leiks í dag