[sam_zone id=1]

World Grand Prix: Undanúrslit hefjast á morgun

Tveir leikir fóru fram í dag í World Grand Prix í dag. Eftir leiki dagsins er það komið á hreint hvaða fjögur lið eru komin áfram í undanúrslitin í keppninni. Serbía, Ítalía, Kína, og Brasilía munu spila í undanúrslitum á morgun.

Serbía – Ítalía

Serbía tryggði sér efsta sætið í sínum riðil í morgun þegar Serbía sigraði Ítalíu 3-1 (25-18, 25-19, 16-25, 27-25). Vitað var fyrir fram að bæði liðin væru komin áfram í undanúrslitin en aðeins var leikið um sæti í riðinum. Vitandi það að bæði liðin væru komin áfram, ákváðu báðir þjálfarar liðanna að hvíla svolítið af sínum lykil leikmönnum. Brankica Mihajlovic úr liði Serbíu sem skoraði 25 stig í síðasta leik kom ekkert við sögu í leiknum, og það sama átti við hina ítölsku Paolu Ogechi Egonu sem skoraði 32 stig í gær.

Serbía sigraði fyrstu tvær hrinurnar ágætlega auðveldlega 25-18 og 25-19. Leikurinn snerist síðan við í þriðju hrinu þar sem Ítalía var yfir 10-4 á tímabili. Ítölsku stúlkurnar héldu forrystunni áfram alla hrinuna og voru meðal annars í 20-12. Þær kláruðu hrinuna 23-16. Fjórða hrina var mun jafnari en fyrstu þrjár hrinurnar. Ítalía var hinsvegar yfir í stöðunni 18-22, en þá fékk Serbía fimm stig í röð og voru komnar yfir 24-22. Ítalía jafnaði aftur leikinn í 24-24, en síðan í stöðunni 26-25 blokkar Boskovic síðasta boltann í leiknum og tryggir Serbíu sigur.

Stigahæst í leiknum var Indre Sorokaite í liði Ítalíu með 22 stig, þar af 19 úr sókn, tvö úr uppgjöf, og eitt úr hávörn. Stigahæst í liði Serbíu var Tijana Boskovic með 16 stig, þar af 14 úr sókn og tvær hávarnir.

Boskovic slær framhjá hávörn Ítalíu

Kína – Holland

Leikur Kína og Hollands var mjög jafn og spennandi allan leikinn, en Ólympíumeistararnir sigruðu Holland í oddahrinu 3-2 (25-23, 23-25, 25-23, 20-25, 18-16). Með tapinu datt Holland út úr keppninni en þær þurftu á sigri að halda eftir tap gegn Brasilíu í gær. Brasilía er því komið áfram í staðin í undanúrslitin.

Eins og sést á stigaskorinu voru allar hrinurnar mjög jafnar. Liðin skiptust á því að vera með forskotið allan leikinn. Í oddahrinunni hafði Holland hinsvegar færi á því að klára leikinn en þær voru yfir 12-14. Ting Zhu skoraði þá tvisvar í röð og náði að janfa stöðuna fyrir Kína í 14-14. Leikurinn var aftur jafn í 16-16 en þá skorar Ting aftur tvö stig í röð og vann Kína hrinuna 18-16 og þar með leikinn 3-2.

Stigahæst í leiknum var Ting Zhu með 33 stig, þar af 31 úr sókn og tvær hávarnir. Stigahæst í liði Hollands var Nika Daalderop með 22 stig, þar af 21 úr sókn og eina hávörn, þrátt fyrir að vera ekki í byrjunnarliði Hollands í fyrstu tveimur hrinunum.

Kínversku stelpurnar ánægðar með sigurinn í dag

Undanúrslitin

Fyrri leikur dagsins er á milli Kína og Ítalíu og er kl 7:00 í fyrramálið. Seinni leikur dagsins er á milli Serbíu og Brasilíu og er kl 12:00 á morgun. Þau lið sem sigra sína leiki munu spila til gulls á sunnudaginn en gull leikurinn erá sunnudaginn kl 12:00. Bronsleikurinn er leikinn á undann og er hann kl 7:00 á sunnudaginn. Hægt er að horfa á alla leikina í beinni útsendingu á Youtube rás Alþjóðablaksambandsins hér.