[sam_zone id=1]

Heimsmeistaramótið í Strandblaki: Bandaríkin og Þýskaland spila um gullið!

Rétt í þessu voru að klárast 4-liða úrslit á heimsmeistaramótinu í strandblaki. Larissa og Talita frá Brasilíu mættu Ludwig og Walkenhorst frá Þýskalandi í fyrri leik dagsins. Seinni leikur dagsins var á milli Ross og Fendrick frá Bandaríkjunum og Pavan og Humana-Paredes frá Kanada.

Larissa/Talita (Brasilía) – Ludwig/Walkenhorst (Þýskaland)

Ólympíumeistararnir Ludwig og Walkenhorst frá Þýskalandi höfðu betur gegn Larissu og Talitu frá Brasilíu í undanúrslitunum á HM í strandblaki fyrr í dag. Leikurinn fór 2-0 (21-19, 21-16). Með sigrinum tryggði Þýskaland sig áfram í úrslitaleikinn sem er á morgun.
Fyrsta hrinan var frekar jöfn allan tíman. Þýskaland náði á tímapunkti ágætis forskoti en Brasilía náði að jafna aftur í stöðunni 19-19. Þýsku stelpurnar náðu þá hinsvegar tveimur stigum í röð og sigruðu hrinuna 21-19.
Önnur hrina byrjað líka jafnt eins og sú fyrri. Í stöðunni 12-12 gaf Þýskaland hins vegar í og tók síðan hrinuna 21-16 og þar með leikinn 2-0. Þær Þýsku spiluðu mjög sannfærandi og þær ætla greinilega að ná sér í gull á heimsmeistaramótinu!

April Ross og Lauren Fendrick fagna stigi

Ross/Fendrick (Bandaríkin) – Pavan/Humana-Paredes (Kanada)

Bandaríkin tryggðu sér einnig sæti í gullleikinn í dag með 2-1 (19-21, 21-16, 15-11) sigri á Kanada í stormasömum leik. Fyrir leikinn höfðu Kanada stúlkur ekki tapað einni hrinu á mótinu. Kandastúlkur byrjuðu fyrstu af miklum krafti, fengu þrjú hávarnarstig í röð og komu sér í 0-3. Kanada hélt áfram að auka forskotið og var staðan á tímabili 3-9, og 6-11. Bandaríkjunum tókst hins vegar að minnka bilið hægt og rólega, og jöfnuðu þær leikinn í 18-18 og svo aftur í 19-19. Þrátt fyrir að hafa minnkað muninn dugði það ekki til og sigraði Kanada fyrstu hrinuna 19-21.
Önnur hrinan byrjaði jafnt og skiptust liðin á að hafa forskotið þangað til í stöðunni 6-6. Þá gáfu Bandaríkin í, náðu sér í gott forskot og héltu því alla hrinuna. Þær kláruðu svo hrinuna örugglega 21-16.
Oddahrinan var svipuð annari hrinunni. Allt var jafnt í stöðunni 7-7, en eftir það náðu Bandaríkin forskoti, og hleyptu Kanadastúlkunum aldrei almennilega inn í leikinn. Leikurinn var samt æsispennandi þar til á síðustu stundi þegar Humana-Paredes sló síðasta boltann út. Bandaríkinn vann þá hrinuna 15-11, og þar með leikinn 2-1.

Úrslitin á morgun

Það er því ljóst að Ludwig og Walkenhorst frá Þýskalandi mæta Ross og Fendrick frá Bandaríkjunum í úrslitaleiknum á morgun. Leikurinn fer fram kl 12:30 að íslenskum tíma. Larissa og Talita frá Brasilíu munu þámæta Pavan og Humana-Paredes í bronsleiknum. Bronsleikurinn er spilaður rétt á undan Gullleiknum, en hann verður kl 11:15. Hægt er að horfa á báða leikina í beinni útsendingu hér.