[sam_zone id=1]

Samantekt frá Grand Prix – Dagur 3

Seinustu leikir annarar umferðar heimsdeildar kvenna kláruðust á sunnudaginn og var mikið um spennandi leiki og óvænt úrslit í þessari síðustu umferð.

Í riðli D1 voru það heimakonur í Japan sem tóku á móti Brasilíu en fyrir leikinn höfðu bæði lið unnið einn sigur hvort. Leikurinn var hin besta skemmtun og endaði í oddahrinu og voru það að lokum heimakonur í Japan sem hrósuðu sigri 17-15 eftir rúmlega tveggja tíma leik.
Seinni leikur dagsins var á milli Serbíu og Taílands en Taíland hafði daginn áður unnið nokkuð óvæntan sigur á Brasilíu, Serbarnir ætluðu þó ekki að láta koma sér á óvart og unnu þær sannfærandi 3-1 sigur.

Riðill D1

Japan-Brasilía 3-2 (25-22, 26-24, 19-25, 20-25, 17-15)
Serbía-Taíland 3-1 (25-17, 23-25, 25-16, 25-19)

Lokastaða

1. Serbía 6 stig
2. Japan 5 stig
3. Brasilía 4 stig
4. Taíland 3 stig

Ítalía hélt áfram á sigurbraut en nú var það lið Tyrklands sem lenti á ítölsku hraðlestinni en leikurinn varð aldrei spennandi og endaði með 3-0 sigri Ítala.
Seinni leikur dagsins var öllu meira spennandi en þar mættu Ólympíumeistarar Kína heimsmeisturum Bandaríkjanna, leikurinn olli ekki vonbrigðum og stóð yfir í um 2 tíma. Það endaði síðan með sigri Kína í fimmtu hrinu og annar ósigur Bandaríkjanna í oddahrinu staðreynd, en þær töpuðu daginn áður gegn Ítalíu í oddahrinu.

Riðill E1

Ítalía-Tyrkland 3-0 (25-13, 25-20, 25-14)
Kína-USA 3-2 (25-27, 25-23, 25-21, 23-25, 15-11)

Lokastaða

1. Ítalía 8 stig
2. Kína 5 stig
3. Bandaríkin 5 stig
4. Tyrkland 0 stig

Það var mikil spenna í fyrsta leik dagsins þegar Dóminíska Lýðveldið mætti Belgíu en Belgíu var fyrir þennan leik án sigurs þessa helgi og hafði ekki enn unnið hrinu. Belgar mættu ákveðnar til leiks og eftir slæma byrjun hrukku þær í gang og náðu að tryggja sér oddahrinu. Þar voru hinsvegar þær Dóminísku sterkari og unnu 15-11.
Seinni leikurinn var síðan stórleikur helgarinnar í þessum riðli þegar heimakonur í Rússlandi tóku á móti Hollandi en hvorugt liðið hafði tapað leik þessa helgina. Leikurinn stóð þó aldrei undir væntingum þar sem Hollendingar voru miklu sterkari og völtuðu yfir heimakonur 3-0.

Riðill F1

Dómíniska Lýðveldið-Belgía 3-2 (25-13, 21-25, 25-21, 18-25, 15-11)
Rússland-Holland 0-3 (18-25, 22-25, 16-25)

Lokstaða

1. Holland 8 stig
2. Rússland 6 stig
3. Dóminíska Lýðveldið 3 stig
4. Belgía 1 stig

Stelpurnar eiga því einungis eftir eina helgi áður en það ræðst hverjar komast í Final 6 og spila um Grand Prix titillinn en það ræðst allt um næstu helgi þegar liðin mætast að nýju og fylgjumst við á blakfréttum að sjálfsögðu með framvindu mála þar.

Úrslit og nánari tölfræði má finna hér.