[sam_zone id=1]

Heimsdeildin (World League): Frakkar Heimsdeildarmeistarar 2017

Úrslitaleikur Heimsdeildarinnar fór fram í nótt og voru það Ólympíumeistarar Brasilíu sem tóku á móti Evrópumeisturum Frakklands. Leikurinn fór fram í Arena da Baixada í borginni Curitiba í Brasilíu fyrir framan rétt yfir 23.000 áhorfendur.

Brasilía byrjaði leikinn betur og unnu fyrstu hrinuna 25-21 eftir endurtekið lokastig þar sem að vörn frakkana endaði í myndavélakrana sem var kominn inná leiksvæðið og því var stigið endurtekið. Frakkar svöruðu heldur betur fyrir sig í annari hrinu og unnu hana nokkuð örugglega 25-15.

Frakkar snéru svo leiknum sér í hag með sigri í þriðju hrinu 25-23 og settu þar með Brasilíu upp að vegg. Heimamenn svöruðu fyrir sig með sigri í fjórðu hrinu 25-19 og tryggðu sér þar með oddahrinu.

Brasilía byrjaði oddahrinuna betur og voru fljótlega komnir í 3-1. Frakkarnir jöfnuðu hinsvegar leikinn og skiptu liðin um vallarhelming í stöðunni 8-7 fyrir Brasilíu. Frakkar höfðu hinsvegar betur á endanum og náðu sigri 15-13 og unnu leikinn þar með 3-2.

Frakkland tryggði sér sín önnur gullverðlaun frá upphafi Heimsdeildarinnar en síðast urðu þeir meistarar árið 2015, en þá fór úrslitaleikurinn einnig fram í Brasilíu. Brasilía situr eftir með sín sjöundu silfurverðlaun en Brasilía hefur oftast allra þjóða unnið keppnina eða níu sinnum.

Earvin Ngapeth leikmaður Frakklands fór fyrir sínum mönnum í leiknum og skoraði 29 stig. Stigahæstu leikmenn Brasilíu voru Wallace De Souza og Ricardo Lucarelli Souza báðir með 22 stig.

Frakkland fær fyrir sigurinn 1 milljón dollara í verðlaun eða 104 milljónir íslenskra króna.