[sam_zone id=1]

Stjarnan deildarmeistari í Mizunodeild karla 2017

Stjarnan varð í kvöld deildarmeistari í Mizunodeild karla eftir sigur á HK 3-2, var þetta fyrsti titill Stjörnumanna síðan 2012.

Það var nokkuð ljóst fyrir leikinn að Stjarnan þurfti aðeins tvær hrinur út úr síðustu tveim leikjum sínum til að koma í veg fyrir að HK næði að stela af þeim efsta sæti Mizunodeildar karla.

Stjarnan var ekkert að flækja málin og gengu bara frá þessu strax með sigri í fyrstu tveim hrinum leiksins, 25-17 og 25-17 en það var þétt setið á áhorfendapöllum í Ásgarði. Það var því strax orðið ljóst að Stjarnan var búin að tryggja sér deildarmeistaratitilinn árið 2017. HK hafði því aðeins uppá stoltið að spila og náðu að sýna að þeir eiga fullt erindi í Stjörnumenn, en HK náði að jafna leikinn með sigri í næstu tveim hrinum 25-21 og 25-22.  Það varð því að grípa til oddahrinu í þessum æsispennandi leik og hafði Stjarnan betur með minnsta mun 15-13.

Stigahæstur í leiknum var fyrirliði Stjörnunnar, Benedikt Baldur Tryggvason með 19 stig. Stigahæstur í liði HK var Kjartan Fannar Grétarsson með 15 stig.

Tölfræði úr leiknum má sjá hér.

(Mynd: A & R Photos)