[sam_zone id=1]

Atvinnumenn í Mizunodeildunum

Nú þegar lokað hefur verið fyrir félagaskipti í Mizunodeildunum er áhugavert að skoða leikmannastöðu hjá liðunum. Aldrei hafa verið fleiri erlendir atvinnumenn að spila í íslenskum deildum og er þetta mjög jákvæð þróun fyrir blakið á Íslandi.

Blakfréttir.is veit ekki um laun einstaklinganna en munu telja þá til atvinnumanna sem fluttu til landsins eingöngu til að spila og/eða þjálfa blak.

 

Mizunodeild Kvenna

Afturelding fékk til sín tvo atvinnumenn á þessu tímabili. Kantsmassarann Ceannia Kincade og díóinn Kate Yeazel, báðar frá Bandaríkjunum. Eins og staðan er í dag (21. febrúar) er Kate Yeazel í draumaliði Mizunodeildarinnar sem besti díóspilarinn og Ceannia Kincade er í fimmta sæti yfir besta kantsmassarann í Mizunodeildinni. Afturelding réð einnig nýjan þjálfara fyrir þetta tímabil, Spánverjann Eduardo Berenguer Herrero. Eduardo tók við af Braslíumanninum Rogerio Leticiakepler Ponticelli, sem náði miklum árangri með kvennalið Aftureldingar, en liðið varð Íslands-, bikar-, og deildarmeistarar á síðasta tímabili. Eduardo var áður aðstoðarþjálfari liðsins ásamt því að spila með karlaliði félagsins.

Þróttur Neskaupstað er með eina erlenda atvinnukonu í liðinu. Það er hún Ana Maria Vidal Bouza, uppspilari, díó og kantsmassari frá Spáni. Ana Maria er í draumaliði Mizunodeildarinnar sem kantsmassari, en hún er einnig í þriðja sæti yfir besta uppspilara Mizunodeildarinnar. Þjálfari Þróttar Neskaupstaðar er Borja Gonzalez Vincente, en hann er einnig frá Spáni.

Stjarnan fékk til sín í byrjun tímabils Rosilyn Rae Cummings. Hún er kantsmassari frá Bandaríkjunum, en hún stendur nú í sjöunda sæti yfir bestu kantsmassara Mizuno deildarinnar. Rosilyn lenti í því óheppilega atviki að hún sleit hásin á dögunum og er hún því úr leik það sem eftir er af tímabilinu. Báðir þjálfarar Stjörnunnar eru einnig erlendir, það eru þeir Michael Pelletier, aðalþjálfari en hann kemur frá Bandaríkjunum og Matthew Gibson, aðstoðarþjálfari sem kemur frá Kanada. Michael og Rosilyn tóku nýlega við stöðu aðstoðarþjálfara hjá íslenska karlalandsliðinu.

KA bætti nýlega við leikmannalistann sinn þegar þau keyptu uppspilara frá Bandaríkjunum. Caila Rose Stapelton er svo ný komin til landsins að hún hefur aðeins spilað tvo leiki með KA. Í þeim leikjum skoraði Caila samtals 20 stig, þar af 16 úr sókn, sem telst mjög gott fyrir uppspilara.

Völsungur keypti Michelle Traini, díó frá Ítalíu, fyrr í febrúar. Michelle hefur spilað fjóra leiki með liði Völsungs. Michelle hefur skorað samtals 44 stig í þessum fjórum leikjum, þar af 40 úr sókn. Þjálfari Völsungs Lorenzo Ciancio er einnig frá Ítalíu, en Lorenzo er í þjálfarateymi íslenska kvennalandsliðsins. Lorenzo var síðustu tvö tímabil þjálfari hjá Stjörnunni.

Þróttur Reykjavík og HK hafa hvorugt erlenda atvinnumenn í liðum sínum.

 

Mizunodeild karla

Afturelding er með tvo erlenda atvinnumenn. Antonio Burgal og Eduardo Berenguer Herrero. Báðir eru þeir frá Spáni. Eduardo er kantsmassari og er einnig þjálfari hjá Aftureldingu, en hann er aðalþjálfari hjá meistaraflokki kvenna og aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokki karla.  Antonio spilar miðju  og er hann stigahæstur í hávörn í Mizunodeild karla.

KA fékk til sín Bandaríkjamanninn Mason Casner í byrjun þessa árs. Mason hefur því aðeins spilað í fjórum leikjum með KA. Mason spilar miðju, en hann spilaði áður í King University í annarri deild NCAA í Bandaríkjunum.

Stjarnan styrkti lið sitt í byrjun þessa tímabils þegar liðið fékk til sín Matthew Gibson og Michael Pelletier. Matthew kemur frá Kanada og er uppspilari, hann er í öðru sæti yfir bestu uppspilara í Mizunodeildinni. Matthew er einnig stigahæstur yfir fjölda stiga úr uppgjöf. Michael er hins vegar kantsmassari. Michael er eins og staðan er í dag með bestu móttökuna í Mizunodeildinni, bestu sóknarnýtinguna, þriðji stigahæstur miðað við fjölda hrina og þriðji stigahæsti í uppgjöf miðað við fjölda hrina. Michael er einnig aðalþjálfari kvennaliðsins, en Matthew er aðstoðarþjálfari. Þjálfari Stjörnunnar er Rosilyn Rae Cummings, en hún spilar með Stjörnunni í Mizunodeild kvenna. Michael og Rosilyn tóku nýlega við stöðu aðstoðarþjálfara hjá íslenska karlalandsliðinu.

Þróttur Neskaupstað hefur í vetur spilað með tvo erlenda atvinnumenn í sínu liði, þá Vincente Borja Gonzales og Jorge Emanuel Basualdo Castano. Þriðji leikmaðurinn mun þó bætast við þann 1. mars en þá fær Aitor Canca Fernandes leikheimild. Aitor Canca er Spánverji, en hann spilaði á síðasta tímabili í Club Voleibol Melilla. Jorge Emanuel kemur frá Argentínu og er fimmti stigahæsti leikmaðurinn í Mizunodeild karla miðað við hrinufjölda, hann er einnig annar stigahæsti leikmaðurinn í deildinni og í öðru sæti yfir bestu nýtingu úr sókn. Vincente Borja kemur frá Spáni en hann er uppspilari. Hann er fjórði besti uppspilarinn í Mizuno deild karla, og fimmti stigahæsti leikmaðurinn úr uppgjöf. Vincente Borja er einnig aðalþjálfari kvennaliðs Þróttar Neskaupstaðar og aðstoðarþjálfari karlameginn. Ana Maria Vidal Bouza er aðalþjálfari karlaliðsins, en hún leikur einnig með kvennaliði Þróttar Neskaupstað.

HK eru ekki með erlenda atvinnumenn en þjálfari liðsins er Ítalinn Massimo Pistoia.

Þróttur Reykjavik / Fylkir eru ekki með neina erlenda atvinnumenn í karladeildinni.

 

Til viðbótar við þá leikmenn og þjálfara sem eru taldir upp hér fyrir ofan þá eru nokkrir sem hafa búið að Íslandi til lengri tíma.