[sam_zone id=1]

Óvenjulegur HK sigur í Laugardalshöll

Þróttur Reykjavík tók á móti HK í Mizunodeild kvenna í kvöld í nokkuð óvenjulegum leik. Eitthvað vantar upp á tölfræðina í fyrstu hrinu en HK hafði yfirhöndina í þeirri hrinu sem endaði 25-16. Boltinn lék í höndum HK kvenna í annarri hrinu. Gestirnir náðu miklu forskoti sem Þróttarar náðu ekki að saxa á fyrr en of seint og endaði hrinan 25-18 fyrir HK.

Þriðja hrina virtist ætla að verða óspennandi frá byrjun þegar HK konur komust í 7-1. Þróttarar keyrðu sig í gang og náðu að jafna 8-8. Í stöðunni 14-14 kom góður kafli hjá Þrótturum og gestirnir gerðu of mörg mistök semendaði með sigri Þróttara 25-18.

Fjórða hrina var nokkuð jöfn í byrjun, en HK konur voru alltaf nokkrum stigum á undan. Eftir að hafa verið yfir 9-8 skipti HK um gír og brunaði fram úr Þrótturum og virtist ætla að taka hrinuna þægilega. Í stöðunni 18-12 kom í ljós að rangur leikmaður hafði verið inn á hjá HK frá upphafi hrinunnar. Þær misstu því öll 18 stigin sín og staðan orðin 13-0. Þetta virtist ekki fara mikið fyrir brjóstið á gestunum sem voru ekki lengi að saxa á 13 stiga forskotið og sýndu af hverju þær eru á toppi deildarinnar. Þróttarar réðu ekkert við sterkar sóknir HK og ekki leið á löngu þar til jafnt var í stöðunni 16-16.HK stelpur kláruðu hrinuna 25-21 og leikinn þar með 3-1.

Stigahæstu leikmenn hjá HK voru Hjördís Eiríksdóttir með 21 stig og Elísabet Einarsdóttir með 17 stig. Hjá Þrótturum var Sunna Þrastardóttir stigahæst með 10 stig og Tinna Sif Arnarsdóttir með 6 stig.