[sam_zone id=1]

Þrír leikir hjá íslendingunum um helgina

Nóg var um að vera hjá íslendingunum í Danmörku um helgina. Alls leika sex íslendingar í úrvalsdeildinni þar í landi og voru þeir allir í eldlínunni síðustu tvo daga.

Galdur Máni Davíðsson og Ævarr Freyr Birgisson leika með Marienlyst-Fortuna og mættu þeir Volleyklubben Vestsjælland í gærkvöldi. Eftir martraðabyrjun Marienlyst-Fortuna, þar sem þeir töpuðu fyrstu hrinunni 14-25, tókst þeim að klóra sig til baka og vinna leikinn 3-1 og þar með taka öll þrjú stigin sem í boði voru. Marienlyst-Fortuna hafa því unnið báða leiki sína það sem af er tímabili og eru með fullt hús stiga.

Máni Matthíasson og félagar hans í Hvidovre VK léku spennandi leik gegn Middelfart VK í dag. Fyrsta hrinan var mjög spennandi en henni lauk með minnsta mun, 23-25, Middelfart í vil. Önnur hrinan var ekki eins spennandi, þar sem Middelfart unnu hana 17-25, en sú þriðja var jafn spennandi og sú fyrsta og lauk henni einnig 23-25, Middelfart í vil. Hvidovre urðu því að sætta sig við 0-3 tap í fyrsta heimaleik þeirra á tímabilinu. Hvidovre hafa átt erfiða byrjun á tímabilinu þar sem þeir hafa tapað báðum leikjum sínum 0-3, en það er nóg eftir af tímabilinu til að bæta það upp.

Systurnar Elísabet og Matthildur Einarsdætur, ásamt Söru Ósk Stefánsdóttur, leika með DHV Odense, og mættu þær Brøndby VK í fyrsta leik sínum á tímabilinu. Það var töluverð spenna framan af fyrstu hrinu og voru liðin jöfn í stöðunni 20-20. Brøndby skoruðu þá fimm stig í röð og unnu fyrstu hrinuna og DHV áttu ansi erfitt uppdráttar eftir það. Næstu tveimur hrinum lauk 16-25 og 12-25, Brøndby í vil, og leiknum því 0-3.